Hendur og hælar Þorvaldur Gylfason skrifar 19. nóvember 2015 07:00 Vantraust almennings á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum mælist nú meira en áður úti í heimi. Því veldur margt að því er virðist, m.a. aukið vægi peninga á vettvangi stjórnmálanna og misskipting lífsgæða. Þessir tveir áhrifavaldar tengjast þar eð peningaöflum hefur tekizt að laða stjórnmálamenn og flokka til fylgilags við aukinn ójöfnuð í skiptingu auðs og tekna. Ein birtingarmynd vandans hér heima er hnignun Sjálfstæðisflokksins sem er nú ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Á fyrri tíð naut Sjálfstæðisflokkurinn trausts og virðingar langt út fyrir raðir flokksmanna sinna. Traustið er hrunið. Virðingin er rokin út í veður og vind. Sjálfstæðisflokkurinn getur sjálfum sér um kennt. Lítum yfir sviðið.Varnarmál Sjálfstæðismenn héldu því fram eftir stríð að Íslandi dygði ekki aðild að Nató heldur þyrfti hér einnig að vera varnarlið. Kommarnir og margir aðrir sögðu nei, varnarþörfin er fyrirsláttur, þið viljið hafa herinn bara til að græða á honum. Þetta reyndist rétt hjá kommunum eins og kom á daginn þegar Bandaríkjastjórn dró herinn til baka að eigin frumkvæði 2006. Þá reyndist ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2007 ekki hafa neina áætlun til vara um varnir landsins, ekkert plan B. Ísland hefur því verið varnarlaust frá 2006 sem er einsdæmi um fullvalda ríki í okkar heimshluta ef Kostaríka er undan skilin. Horfir þó að ýmsu leyti ófriðlegar í Evrópu nú en oft áður. Nató kennir Rússum um aukna spennu, m.a. vegna framferðis þeirra í Úkraínu. Hermangið hér heima undir handarjaðri stjórnmálaflokkanna að kommunum undan skildum var að sönnu umtalsvert, en atvikin höguðu málum svo að eini dómurinn sem gekk í hermangsmáli sem stjórnmálahagsmunir voru bundnir við var dómurinn í olíumálinu yfir Vilhjálmi Þór seðlabankastjóra, einum helzta virðingarmanni Framsóknarflokksins um sína daga. Félagi Vilhjálms var dæmdur til fangavistar, en sök Vilhjálms var fyrnd þegar til kastanna kom. Framsókn sat uppi með Svarta Pétur.Efnahagsmál Sjálfstæðismenn héldu því löngum fram, einnig fyrir alþingiskosningarnar 2007, að þeim einum væri treystandi fyrir efnahagsmálum og kommarnir myndu valda eintómu öngþveiti kæmust þeir í aðstöðu til þess. Annað kom á daginn. Sjálfstæðisflokkurinn átti flokka mestan þátt í að keyra bankana í þrot 2008 og hrinda landinu fram af hengiflugi eins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis vitnar um. Fjórir af þeim sjö einstaklingum í stjórnkerfinu sem RNA-skýrslan segir hafa sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga í aðdraganda hrunsins voru hátt settir sjálfstæðismenn. Einn þeirra, fv. forsætisráðherra, var fundinn sekur um vanrækslu fyrir Landsdómi. Ekki nóg með það: seðlabankastjóri Sjálfstæðisflokksins reyndi að fá Rússa til að taka Ísland upp á arma sína til að forða landinu frá bjargráðum AGS og Norðurlanda og sendi menn til Moskvu til að ganga frá málinu, en tilraunin rann út í sandinn. Sagan af því máli er ósögð enn. Og hverjir þurftu að taka til eftir að Sjálfstæðisflokkurinn skildi landið eftir á hvínandi kúpunni? Kommarnir, nema hvað! – með Steingrím Sigfússon fv. fjármálaráðherra í fararbroddi. Reynslan ber vitni: Sjálfstæðisflokknum er engan veginn treystandi fyrir efnahagsmálum. Eftir stendur enn að rannsaka einkavæðingu bankanna 1998-2003 eftir helmingaskiptareglu sem leiddi til hruns á örfáum árum. Alþingi samþykkti loksins 2013 að láta slíka rannsókn fara fram, en framkvæmdin situr á hakanum að því er virðist til að tryggja að sakir fyrnist.Lýðræði Sjálfstæðismenn héldu því fram áratugum saman að kommarnir væru Rússadindlar og sætu á svikráðum við lýðræðið og þeim væri því ekki treystandi. Enda gerðist það aðeins einu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með kommunum, nýsköpunarstjórnina 1944-1947. En hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur? Hann reyndi að koma Íslandi á framfæri Rússa eftir hrun. Sjálfstæðisflokkurinn ógnar ekki bara lýðræðinu, heldur trampar hann beinlínis á því með því að reyna að hafa að engu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi hélt um nýja stjórnarskrá sem kjósendur samþykktu með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Þannig reynir Sjálfstæðisflokkurinn að ræna Íslendinga margvíslegum réttarbótum sem þeir kusu sér til handa, m.a. réttmætum arði af auðlindum í þjóðareigu og jöfnu vægi atkvæða. Enginn stjórnmálaflokkur í nálægu landi hefur nokkru sinni sýnt lýðræði aðra eins lítilsvirðingu ef Framsókn ein er undan skilin. Þess vegna hljóta margir þeirra sem aðhyllast gamlar hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar að fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn mun ganga klofinn til næstu alþingiskosninga. Viðreisn Benedikts Jóhannessonar stærðfræðings og félaga unir því ekki að kommarnir standa með pálmann í höndunum og Sjálfstæðisflokkurinn er með buxurnar á hælunum. Það er orðið löngu tímabært að skipta Sjálfstæðisflokknum upp í minni og meðfærilegri einingar eða leyfa honum að leysast upp líkt og systurflokkur hans á Ítalíu, Kristilegi demókrataflokkurinn, og margir kommúnistaflokkar í Evrópu lögðu upp laupana fyrir aldarfjórðungi, saddir lífdaga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Konungar markaðarins Eiríkur Ingi Magnússon Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Vantraust almennings á stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum mælist nú meira en áður úti í heimi. Því veldur margt að því er virðist, m.a. aukið vægi peninga á vettvangi stjórnmálanna og misskipting lífsgæða. Þessir tveir áhrifavaldar tengjast þar eð peningaöflum hefur tekizt að laða stjórnmálamenn og flokka til fylgilags við aukinn ójöfnuð í skiptingu auðs og tekna. Ein birtingarmynd vandans hér heima er hnignun Sjálfstæðisflokksins sem er nú ekki nema svipur hjá fyrri sjón. Á fyrri tíð naut Sjálfstæðisflokkurinn trausts og virðingar langt út fyrir raðir flokksmanna sinna. Traustið er hrunið. Virðingin er rokin út í veður og vind. Sjálfstæðisflokkurinn getur sjálfum sér um kennt. Lítum yfir sviðið.Varnarmál Sjálfstæðismenn héldu því fram eftir stríð að Íslandi dygði ekki aðild að Nató heldur þyrfti hér einnig að vera varnarlið. Kommarnir og margir aðrir sögðu nei, varnarþörfin er fyrirsláttur, þið viljið hafa herinn bara til að græða á honum. Þetta reyndist rétt hjá kommunum eins og kom á daginn þegar Bandaríkjastjórn dró herinn til baka að eigin frumkvæði 2006. Þá reyndist ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2007 ekki hafa neina áætlun til vara um varnir landsins, ekkert plan B. Ísland hefur því verið varnarlaust frá 2006 sem er einsdæmi um fullvalda ríki í okkar heimshluta ef Kostaríka er undan skilin. Horfir þó að ýmsu leyti ófriðlegar í Evrópu nú en oft áður. Nató kennir Rússum um aukna spennu, m.a. vegna framferðis þeirra í Úkraínu. Hermangið hér heima undir handarjaðri stjórnmálaflokkanna að kommunum undan skildum var að sönnu umtalsvert, en atvikin höguðu málum svo að eini dómurinn sem gekk í hermangsmáli sem stjórnmálahagsmunir voru bundnir við var dómurinn í olíumálinu yfir Vilhjálmi Þór seðlabankastjóra, einum helzta virðingarmanni Framsóknarflokksins um sína daga. Félagi Vilhjálms var dæmdur til fangavistar, en sök Vilhjálms var fyrnd þegar til kastanna kom. Framsókn sat uppi með Svarta Pétur.Efnahagsmál Sjálfstæðismenn héldu því löngum fram, einnig fyrir alþingiskosningarnar 2007, að þeim einum væri treystandi fyrir efnahagsmálum og kommarnir myndu valda eintómu öngþveiti kæmust þeir í aðstöðu til þess. Annað kom á daginn. Sjálfstæðisflokkurinn átti flokka mestan þátt í að keyra bankana í þrot 2008 og hrinda landinu fram af hengiflugi eins og skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis vitnar um. Fjórir af þeim sjö einstaklingum í stjórnkerfinu sem RNA-skýrslan segir hafa sýnt af sér vanrækslu í skilningi laga í aðdraganda hrunsins voru hátt settir sjálfstæðismenn. Einn þeirra, fv. forsætisráðherra, var fundinn sekur um vanrækslu fyrir Landsdómi. Ekki nóg með það: seðlabankastjóri Sjálfstæðisflokksins reyndi að fá Rússa til að taka Ísland upp á arma sína til að forða landinu frá bjargráðum AGS og Norðurlanda og sendi menn til Moskvu til að ganga frá málinu, en tilraunin rann út í sandinn. Sagan af því máli er ósögð enn. Og hverjir þurftu að taka til eftir að Sjálfstæðisflokkurinn skildi landið eftir á hvínandi kúpunni? Kommarnir, nema hvað! – með Steingrím Sigfússon fv. fjármálaráðherra í fararbroddi. Reynslan ber vitni: Sjálfstæðisflokknum er engan veginn treystandi fyrir efnahagsmálum. Eftir stendur enn að rannsaka einkavæðingu bankanna 1998-2003 eftir helmingaskiptareglu sem leiddi til hruns á örfáum árum. Alþingi samþykkti loksins 2013 að láta slíka rannsókn fara fram, en framkvæmdin situr á hakanum að því er virðist til að tryggja að sakir fyrnist.Lýðræði Sjálfstæðismenn héldu því fram áratugum saman að kommarnir væru Rússadindlar og sætu á svikráðum við lýðræðið og þeim væri því ekki treystandi. Enda gerðist það aðeins einu sinni að Sjálfstæðisflokkurinn myndaði ríkisstjórn með kommunum, nýsköpunarstjórnina 1944-1947. En hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur? Hann reyndi að koma Íslandi á framfæri Rússa eftir hrun. Sjálfstæðisflokkurinn ógnar ekki bara lýðræðinu, heldur trampar hann beinlínis á því með því að reyna að hafa að engu þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi hélt um nýja stjórnarskrá sem kjósendur samþykktu með 67% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Þannig reynir Sjálfstæðisflokkurinn að ræna Íslendinga margvíslegum réttarbótum sem þeir kusu sér til handa, m.a. réttmætum arði af auðlindum í þjóðareigu og jöfnu vægi atkvæða. Enginn stjórnmálaflokkur í nálægu landi hefur nokkru sinni sýnt lýðræði aðra eins lítilsvirðingu ef Framsókn ein er undan skilin. Þess vegna hljóta margir þeirra sem aðhyllast gamlar hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar að fagna því að Sjálfstæðisflokkurinn mun ganga klofinn til næstu alþingiskosninga. Viðreisn Benedikts Jóhannessonar stærðfræðings og félaga unir því ekki að kommarnir standa með pálmann í höndunum og Sjálfstæðisflokkurinn er með buxurnar á hælunum. Það er orðið löngu tímabært að skipta Sjálfstæðisflokknum upp í minni og meðfærilegri einingar eða leyfa honum að leysast upp líkt og systurflokkur hans á Ítalíu, Kristilegi demókrataflokkurinn, og margir kommúnistaflokkar í Evrópu lögðu upp laupana fyrir aldarfjórðungi, saddir lífdaga.