Volvo hefur þegar kynnt XC90 jeppann og styttast fer í kynningu á S90, sem er stór fólksbíll með skotti. Í kjölfar hans á svo að koma þessi V90, sem hér sést í formi leikfangabíls.
Þetta er langbakur í lúxusbílaflokki sem keppa á við bíla eins og Audi A6, BMW 5-línuna og Mercedes Benz E-Class, enda á stærð við þá. Volvo 90-serían mun leysa af Volvo S80 og V70 bílana.
Svo virðist sem bíllinn hafi erft talsvert frá tilraunabíl Volvo Concept Estate og fagna því vafalaust margir þar sem það þótti með eindæmum fagur bíll. Framljósin eru Þórhamarslaga eins og í XC90 jeppanum og afturljósin eru alveg eins og í Concept Estate. Gler er á öllu þaki bílsins, krómaðir þakbogar og stór vindkljúfur að aftan.
