Landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir varð í dag norskur meistari með liði sínu Lilleström.
Guðbjörg og stöllur hennar hafa haft mikla yfirburði í norsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og þær tryggðu sér titilinn með 4-1 sigri á Arna-Björnar í dag.
Tveimur umferðum er enn ólokið en Lilleström hefur unnið 17 af 20 deildarleikjum sínum, gert tvö jafntefli og aðeins tapað einum leik.
Lilleström hefur einungis fengið á sig 12 mörk en Guðbjörg hefur haldið marki sínu hreinu í 11 af 20 deildarleikjum liðsins á tímabilinu.
Lilleström á möguleika á að vinna tvöfalt í ár en liðið mætir Avaldsnes í bikarúrslitaleik þann 21. nóvember. Þá er Lilleström komið áfram í 16-liða úrslit í Meistaradeild Evrópu.
