Bara fólk Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. október 2015 08:00 Íslenskri fjölskyldu var synjað um dvalarleyfi í Tromsö í Noregi þar eð sýnt þótti að fólkið væri einungis þangað komið í leit að betri lífskjörum. Maður einn upprunalega frá Djúpavogi var sendur burt frá Kópavogi og aftur til Vestmannaeyja þar sem hann hafði þegar fengið starf og gat hann ekki sýnt fram á að annað vekti fyrir honum með vistaskiptunum en ævintýralöngun. Konu einni var neitað um kaup á kjallaraíbúð í Karfavogi og hún send aftur í Grundargerði því að hún gat ekki sýnt fram á að aðrar ástæður væru fyrir flutningum en að hún vildi að börnin hennar færu í Vogaskóla. Fáránleg dæmi? Svo sannarlega – en svo sem ekkert fáránlegri en úrskurðir Útlendingastofnunar að undanförnu sem vakið hafa almenna undrun og hneykslun: nú síðast á að reka albanska fjölskyldu úr landi, hjón með þrjú börn sem eru að byrja í skóla. Af hverju? Ja, þau hafa væntanlega ekki sýnt nógsamlega fram á eitthvað; væntanlega að þau séu í lífshættu verði þau rekin burt, og sönnunarbyrðin þyngri en í kynferðisglæpamálum í Hæstarétti. Ekki einu sinni sýrlenskum hjónum með tvö lítil börn tekst að sýna þessari þungbúnu stofnun fram á að stríðsástandi ríki í landi sínu. Burt með þau. Forsenda kerfisins er alltaf sú, að þau sem hér vilja búa séu sek uns annað sannist. Sek um hvað? Að vilja búa sér og sínum góð lífskjör. Hver er flóttamannavandinn?Ísland er furðulega lokað land. Miðað við stífa löggjöf og smásmugulega framgöngu íslenskra yfirvalda mætti ætla að hér væri verulegt flóttamannavandamál í þröngbýlu landi – hvergi þverfótað fyrir flóttamönnum og að Íslendingar hefðu verulegan ama af straumi fólks hingað sem hefði þá hugsjón eina í lífinu að leggjast upp á hina harðduglegu Íslendinga. Þetta er vel að merkja ekki útlegging á afkimum umræðunnar, þar sem vansælar manneskjur næra hatur á bláókunnugu fólki sem þær vita ekkert um: Það er sjálfur grundvöllur stefnunnar sem hér er rekin gagnvart fólki sem hingað leitar; að flóttamannastraumur til Íslands sé vandamál. Óvelkomnast – sekast – virðist það fólk sem hefur ekki vottorð upp á að í upprunalandi sínu sé styrjöld eða það verði tekið af lífi í heimalandi sínu – en langar einfaldlega til þess að gera eins og Íslendingar gera um þessar mundir í Noregi: að leita að betra lífi, betra kaupi, betri vinnu, betra samfélagi, framtíð fyrir börnin. Í rauninni er naumast við annan vanda að etja hér en þann sem hlýst af einstrengingslegri stefnu yfirvalda í innflytjendamálum. Þeir sem hingað koma, og eru ekki á vegum verktaka eða hjá starfsmannaleigum, eru óðara lokaðir inni í einhverju steinsteyptu einskismannslandi þar sem þeir mega húka aðgerðalausir mánuðum saman eins og í nokkurs konar störukeppni og bíða eftir því að skorið verði úr um það hvort þeir teljist nægilega ofsóttir til að verðskulda landvist hér. Sú stefna hefur beinlínis verið mörkuð að þeir útlendingar sem hér starfa skuli eingöngu gera það á vegum verktaka eða hjá sérstökum starfsmannaleigum, búa í ósamþykktu verksmiðjuhúsnæði fjarri mannabyggðum, stundum margir saman á litlu svæði, og sinna vinnu sinni þar til þeir fara aftur heim, og hafa helst engan Íslending hitt. Engu er líkara en að Ástandsnefndin sé enn að störfum og Jóhanna Knudsen á þönum við að bægja burt óhreinum útlendingum. Réttindi handa öllumAllt er þetta bara fólk. Við gleymum því stundum. Og líka hinu sem Ari skáld Jósefsson sagði okkur: að fólk er „alveg lýgilega gott“. Í umræðunni er allt kapp lagt á að sveipa umsækjendur um landvist sem annarlegustum einkennum, hvort sem litið er á útlit, húðlit, venjur, matarsiði, tungutak og náttúrlega trúarbrögð, sem er nokkurn veginn tilgangslausasta þrætuepli í heimi og vinsælt eftir því vegna þess að það leiðir aldrei til nokkurrar niðurstöðu. En allt er þetta bara fólk. Það trúir á þetta og hitt og ekki neitt, það langar í þetta og hitt, dreymir um sómasamlegt líf; reglulega vinnu, huggulegt húsnæði, ánægjuleg samskipti við vini og kunningja og góða menntun til handa börnum sínum svo að þau geti með tíð og tíma orðið að nýtum þegnum. Hér er gott að vera, miðað við ýmsa aðra staði á jörðinni. Á Íslandi er efnað samfélag og og ef við berum gæfu til að jafna betur þeim gríðarlega auði sem hér er skapaður gæti framtíðin orðið björt hér, hjá ungri og velmenntaðri þjóð. Einstaklingarnir hafa hér margvísleg réttindi, sem náðst hafa með samtakamætti og harðdrægni almannasamtaka. Þetta eru eftirsóknarverð réttindi sem allar manneskjur ættu að njóta: frelsi til orðs og æðis og afl til að semja um kaup og kjör, skipta um vinnu, flytja, kjósa. En réttindi okkar mega aldrei vera forréttindi eða sérréttindi og við eigum að bjóða allar manneskjur velkomnar sem vilja njóta þeirra. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Íslenskri fjölskyldu var synjað um dvalarleyfi í Tromsö í Noregi þar eð sýnt þótti að fólkið væri einungis þangað komið í leit að betri lífskjörum. Maður einn upprunalega frá Djúpavogi var sendur burt frá Kópavogi og aftur til Vestmannaeyja þar sem hann hafði þegar fengið starf og gat hann ekki sýnt fram á að annað vekti fyrir honum með vistaskiptunum en ævintýralöngun. Konu einni var neitað um kaup á kjallaraíbúð í Karfavogi og hún send aftur í Grundargerði því að hún gat ekki sýnt fram á að aðrar ástæður væru fyrir flutningum en að hún vildi að börnin hennar færu í Vogaskóla. Fáránleg dæmi? Svo sannarlega – en svo sem ekkert fáránlegri en úrskurðir Útlendingastofnunar að undanförnu sem vakið hafa almenna undrun og hneykslun: nú síðast á að reka albanska fjölskyldu úr landi, hjón með þrjú börn sem eru að byrja í skóla. Af hverju? Ja, þau hafa væntanlega ekki sýnt nógsamlega fram á eitthvað; væntanlega að þau séu í lífshættu verði þau rekin burt, og sönnunarbyrðin þyngri en í kynferðisglæpamálum í Hæstarétti. Ekki einu sinni sýrlenskum hjónum með tvö lítil börn tekst að sýna þessari þungbúnu stofnun fram á að stríðsástandi ríki í landi sínu. Burt með þau. Forsenda kerfisins er alltaf sú, að þau sem hér vilja búa séu sek uns annað sannist. Sek um hvað? Að vilja búa sér og sínum góð lífskjör. Hver er flóttamannavandinn?Ísland er furðulega lokað land. Miðað við stífa löggjöf og smásmugulega framgöngu íslenskra yfirvalda mætti ætla að hér væri verulegt flóttamannavandamál í þröngbýlu landi – hvergi þverfótað fyrir flóttamönnum og að Íslendingar hefðu verulegan ama af straumi fólks hingað sem hefði þá hugsjón eina í lífinu að leggjast upp á hina harðduglegu Íslendinga. Þetta er vel að merkja ekki útlegging á afkimum umræðunnar, þar sem vansælar manneskjur næra hatur á bláókunnugu fólki sem þær vita ekkert um: Það er sjálfur grundvöllur stefnunnar sem hér er rekin gagnvart fólki sem hingað leitar; að flóttamannastraumur til Íslands sé vandamál. Óvelkomnast – sekast – virðist það fólk sem hefur ekki vottorð upp á að í upprunalandi sínu sé styrjöld eða það verði tekið af lífi í heimalandi sínu – en langar einfaldlega til þess að gera eins og Íslendingar gera um þessar mundir í Noregi: að leita að betra lífi, betra kaupi, betri vinnu, betra samfélagi, framtíð fyrir börnin. Í rauninni er naumast við annan vanda að etja hér en þann sem hlýst af einstrengingslegri stefnu yfirvalda í innflytjendamálum. Þeir sem hingað koma, og eru ekki á vegum verktaka eða hjá starfsmannaleigum, eru óðara lokaðir inni í einhverju steinsteyptu einskismannslandi þar sem þeir mega húka aðgerðalausir mánuðum saman eins og í nokkurs konar störukeppni og bíða eftir því að skorið verði úr um það hvort þeir teljist nægilega ofsóttir til að verðskulda landvist hér. Sú stefna hefur beinlínis verið mörkuð að þeir útlendingar sem hér starfa skuli eingöngu gera það á vegum verktaka eða hjá sérstökum starfsmannaleigum, búa í ósamþykktu verksmiðjuhúsnæði fjarri mannabyggðum, stundum margir saman á litlu svæði, og sinna vinnu sinni þar til þeir fara aftur heim, og hafa helst engan Íslending hitt. Engu er líkara en að Ástandsnefndin sé enn að störfum og Jóhanna Knudsen á þönum við að bægja burt óhreinum útlendingum. Réttindi handa öllumAllt er þetta bara fólk. Við gleymum því stundum. Og líka hinu sem Ari skáld Jósefsson sagði okkur: að fólk er „alveg lýgilega gott“. Í umræðunni er allt kapp lagt á að sveipa umsækjendur um landvist sem annarlegustum einkennum, hvort sem litið er á útlit, húðlit, venjur, matarsiði, tungutak og náttúrlega trúarbrögð, sem er nokkurn veginn tilgangslausasta þrætuepli í heimi og vinsælt eftir því vegna þess að það leiðir aldrei til nokkurrar niðurstöðu. En allt er þetta bara fólk. Það trúir á þetta og hitt og ekki neitt, það langar í þetta og hitt, dreymir um sómasamlegt líf; reglulega vinnu, huggulegt húsnæði, ánægjuleg samskipti við vini og kunningja og góða menntun til handa börnum sínum svo að þau geti með tíð og tíma orðið að nýtum þegnum. Hér er gott að vera, miðað við ýmsa aðra staði á jörðinni. Á Íslandi er efnað samfélag og og ef við berum gæfu til að jafna betur þeim gríðarlega auði sem hér er skapaður gæti framtíðin orðið björt hér, hjá ungri og velmenntaðri þjóð. Einstaklingarnir hafa hér margvísleg réttindi, sem náðst hafa með samtakamætti og harðdrægni almannasamtaka. Þetta eru eftirsóknarverð réttindi sem allar manneskjur ættu að njóta: frelsi til orðs og æðis og afl til að semja um kaup og kjör, skipta um vinnu, flytja, kjósa. En réttindi okkar mega aldrei vera forréttindi eða sérréttindi og við eigum að bjóða allar manneskjur velkomnar sem vilja njóta þeirra.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun