Ein stærsta ástæðan fyrir sigri Hauka var frammistaða litháíska markvarðarins Giedrius Morkunas sem varaði 16 skot í gær, þar af tvö vítaköst og var með 59 prósent hlutfallsmarkvörslu.
Það þykir mjög gott að verja 40 prósent þeirra skota sem þú færð á þig í handboltaleik, en Morkunas, sem hefur verið besti markvörður Íslandsmótsins um nokkurra mánaða skeið, gerði gott betur í gær.

Morkunas heldur áfram þar sem frá var horfið á síðustu leiktíð, en hann er búinn að verja 47 prósent allra skota sem hann hefur fengið á sig í deildinni til þessa í fyrstu fjórum umferðunum.
Það er ekki síst honum, og sterkum varnarleik liðsins, að þakka að liðið er með sex stig eftir fjórar umferðir.
ÍBV er eina liðið sem er búið að sækja gull í greipar Haukanna, en Morkunas varði engu að síður 45 prósent skotanna í tapleiknum gegn ÍBV í þriðju umferðinni. Það dugði bara ekki til þá.
Morkunas í ham gegn Stjörnunni í fyrra:
Litháinn byrjaði rólega og varði „aðeins“ 35 prósent skotanna sem hann fékk á sig gegn nýliðum Víkings í 28-19 útisigri, en var svo kominn í kunnuglegar tölur (49 prósent hlutfallsmarkvarsla) þegar Haukar unnu Val, 26-19, í annarri umferðinni.
ÍBV er eina liðið sem er búið að skora fleiri en 20 mörk á Haukanna, en þeir hafa fengið fæst mörk á sig í deildinni (76) af þeim liðum sem eru búin að spila fjóra leiki. Næst kemur Afturelding sem er búið að fá á sig 82 mörk.
Næsta lið sem fær að spreyta sig gegn Morkunas og Haukavörninni er Fram, en liðin mætast í Schenker-höllinni á mánudagskvöldið.
Fyrstu fjórir leikir Morkunas:
Víkingur - Haukar 19-28
9 varin skot, 35 prósent hlutfallsmarkvarsla
Valur - Haukar 19-26
17 varin skot (1 víti), 49 prósent hlutfallsmarkvarsla
Haukar - ÍBV 19-21
17 varin skot, 45 prósent hlutfallsmarkvarsla
Akureyri - Haukar 17-28
16 varin skot (2 víti), 59 prósent hlutfallsmarkvarsla