Liðsfélagi Rosberg, Lewis Hamilton var annar á fyrri æfingunni. Daniel Ricciardo á Red Bull þriðji og Sebastian Vettel á Ferrari fjórði. Kimi Raikkonen varð fimmti og jafnframt síðasti ökumaðurinn sem var innan við sekúndu á eftir Rosberg.
Brautin í Singapúr er frekar þröng götubraut. Aflmunurinn sem Mercedes hefur notið undanfarið hefur því minni áhrif. Red Bull var nær toppnum en áður og Williams var fjarri góðu formi. Valtteri Bottas var sjötti og Felipe Massa 17.
Alexander Rossi sem tekur þátt í sinni fyrstu fullu keppnishelgi um helgina skellti Manor bílnum á varnarvegg. Hann missti stjórn á bílnum og braut fjöðrunarbúnað á bílnum.

Will Stevens klessti á varnarvegg á hinum Manor bílnum, svo það hefur verið nóg að gera í bílskúrnum hjá Manor í dag og verður fram eftir.
„Við erum ekki kát með frammistöðu okkar í dag. Okkur tókst ekki að ná gripi í dekkin,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.
„Dagurinn byrjaði vel hjá ALexander (Rossi). Hann hefur sýnt það í gegnum árin að han er einkar hæfileikaríkur. Allar upplýsingar hjálpa okkur að taka ákvörðun um ökumenn næsta árs. Við erum að flytja í þessum töluðu orðum. Liðið verður allt undir einu þaki í fyrsta skipti í næstum 12 mánuði,“ sagði John Booth, keppnisstjóri Manor.
Tímatakan verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á morgun, útsendingin hefst klukkan 12:50. Keppnin verður svo í beinni á Stöð 2 Sport frá klukkan 11:30 á sunnudag.
Hér fyrir neðan má sjá öll helstu úrslit dagsins og helgarinnar, þau uppfærast eftir því sem helgin líður.