Mons Ivar Mjelde var í gær látinn taka pokann sinn sem þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Start sem Guðmundur Kristjánsson spilar með.
Annar Íslendingur, Matthías Vilhjálmsson, var á mála hjá Start áður en hann var keyptur til Rosenborg í glugganum og síðan þá hefur ekkert gengið hjá liðinu.
Salan á Ísfirðingnum segir Mjelde að hafi einfaldlega verið byrjunin á endanum hjá liðinu og þar af leiðandi honum sem þjálfara þess.
„Það gerðist eitthvað í hópnum þegar Matthías Vilhjálmsson fór. Hann var aðal maðurinn í klefanum, á æfingum og í leikjum. Við urðum áberandi slakari á einni nóttu þegar hann fór,“ segir Mjelde, en Aftenbladet greinir frá.
Allt félagið verið dapurt síðan hann fór
Matthías kom til Start 2012 þegar liðið var í B-deildinni. Hann raðaði inn mörkum á fyrsta tímabili og átti stóran þátt í að koma liðinu upp. Síðan þá hefur liðið haldið sæti sínu í úrvalsdeildinni og Matthías verið lykilmaður.
Start var vissulega búið að tapa tveimur leikjum í röð þegar Ísfirðingurinn fluttist til Þrándheims, en síðan þá er liðið búið að tapa fimm leikjum til viðbótar í röð. Start er allt í einu komið í harða fallbaráttu þegar átta leikir eru eftir.
„Þetta kom mér á óvart. Að missa Matthías hafði meiri áhrif en ég, félagið og stuðningsmennirnir reiknuðu með. Við höfum ekki verið sjálfum okkur líkir síðan hann var seldur og ekki spilað jafn góðan fótbolta. Allt félagið hefur verið dapurt síðan hann fór,“ segir Mons Ivar Mjelde.
