Justin Wilson, fyrrum Formúlu 1 ökumaður lést eftir slys í Indy kappakstri á Pocono brautinni á sunnudag. Wilson fékk brot úr öðrum bíl á hjálminn og ók stjórnlaust á varnarvegg.
Slysið á sunnudag endurvakti umræðu sem síðast fór fram eftir slys Jules Bianchi í japanska kappakstrinum á síðasta ári, Binachi lést fyrr í sumar eftir að hafa legið í dái frá því að slysið varð, 5. október í fyrra.
Felipe Massa varð fyrir höfuðmeiðslum árið 2009 þegar gormur lenti í hjálmi hans á mikilli ferð og rotaði hann.
Henry Surtees lést er laust dekk lenti á hjálmi hans í Formúlu 2 kappakstri árið 2009.

Stærsta vandamálið við yfirbyggða ökumannsklefa er að ná ökumanni úr bílnum ef slys verður. Allar tafir á því að ökumenn komist undir læknishendur geta skipt sköpum.
Gallarnir voru taldir veigameiri en kostirnir. Atvik sem átti sér stað í austurríska kappakstrinum er ágætis dæmi um af hverju niðurstaðan er þessi. Fernando Alonso og Kimi Raikkonen lentu í árekstri og endaði bíll Alonso ofan á bíl Raikkonen. Það hefði tekið mikilvægar mínútur að ná Raikkonen úr bílnum ef ökumannsklefinn hefði verið lokaður.
Nýjasta hugmyndin
Í næsta mánuði hefjast prófanir á nýrri hugmynd um einskonar blöð eða spaða sem myndu standa lóðrétt upp úr yfirbyggingu bílsins, fyrir framan höfuð ökumanns.
Þessi hugmynd var rædd á fundi tæknistjóra Formúlu 1 liða í síðustu viku. Áður en slysið varð um helgina.
„Ég sé fyrir mér að það þetta muni gerast einn daginn. Við munum finna eitthvað til að minnka líkur á því að ökumenn verði fyrir meiðslum,“ sagði Charlie Whiting regluvörður FIA, aðspurður um líklega þróun mála.

Hefðin er oft notuð sem rök gegn lokuðum ökumannsklefum. Hefð er ekki tæk sem rök þegar kemur að öryggismálum.
Það þarf að breyta einhverju, ef hefðin hefði alltaf vinningin notuðu ökumenn enn hjálma úr leðri. Það er ef einhver vogaði sér enn að aka Formúlu 1 bíl.
Opnir ökumannsklefar eru líklega alvarlegasti öryggisgalli sem Formúlu 1 bílar nútímans hafa.
Ég viðurkenni að sú hugmynd var í höfði mér að hættan væri hluti af sjarmanum við Formúlu 1. Sú hugmynd hefur gjörbreyst núna á skömmum tíma. Hættan verður alltaf til staðar að einhverju leyti en dauðsföllin eru óásættanlegur hluti af kappakstri.