Ryo Ishikawa leiðir á Quicken Loans National mótinu sem fram fer á Robert Trent Jones vellinum en eftir 36 holur er þessi ungi Japani á 11 höggum undir pari.
Ishikawa á eitt högg á þá Rickie Fowler og Kevin Chappell sem koma á tíu undir pari en Svíinn David Lingmerth er einn í fjórða sæti á níu undir.
Tiger Woods er síðan ekki langt undan ásamt fleiri kylfingum en hann er á átta höggum undir pari eftir hring upp á 66 eða fimm undir í dag.
Hann hóf mótið illa í gær en eftir þrjá skolla á fyrstu fjórum holunum á fyrsta hring hefur þessi fyrrum besti kylfingur heims sýnt allar sínar bestu hliðar og virðist til alls líklegur um helgina.
Sigurvegari síðasta árs, Justin Rose, er einnig ofarlega á skortöflunni en hann er á fimm höggum undir pari eftir hringina tvo.
Bein útsending frá þriðja hring hefst klukkan 17:00 á Golfstöðinni á morgun.
