Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði Vålerenga sem vann Rúnar Kristinsson og lærisveina hans í Lilleström, 2-0, í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Alexander Mathisen fiskaði vítaspyrnu á 50. mínútu sem hann skoraði úr sjálfur og svo varð Marius Amundsen fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 65. mínútu.
Elías Már spilaði fyrir aftan fremsta mann í kvöld er sagður hafa staðið sig vel. Hann var tekinn af velli á 81. mínútu.
Finnur Orri Margeirsson var í byrjunarliði Lilleström og spilaði allan leikinn, en Rúnar og hans menn eru í níunda sæti deildarinnar með 21 stig eftir 17 umferðir.
Með sigrinum komust Elías Már og félagar hans upp í annað sæti deildarinnar, en liðið er með 33 stig, sex stigum minna en topplið Rosenborg.
