Óvíst er hvort grískur almenningur þoli tvö ár af óvissu sem gæti fylgt útgöngu þeirra úr evrusamstarfinu eftir að hafa þurft að þola fimm ár af niðurskurði, segja sérfræðingar í efnahagsmálum í Grikklandi. Ljóst er að Alexis Tsipras forsætisráðherra Grikklands vill gera allt til að halda Grikkjum innan evrusamstarfsins.
Militiadis Gkouzouris, efnahags- og fjármálaráðgjafi, rekur fyrirtækið Costwise sem starfar bæði innan Grikklands og á alþjóðlegum vettvangi.
„Útganga Grikklands er það versta sem gæti komið fyrir. Það myndi þýða að við þyrftum að byrja upp á nýtt sem ný þjóð sem er eitthvað sem er ekki æskilegt fyrir neinn. Það þýddi að við þyrftum að gera alla milliríkjasamninga upp á nýtt, samninga við önnur lönd og stofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar, Nato og svo framvegi,“ sagði Gkouzouris í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Auk þess hefðum við nýjan gjaldmiðil sem væri verðlaus. Það tæki mörg ár áður en hann væri einhvers virði. Það þýddi fátækt þegar í stað fyrir marga, vöruskort þegar í stað hvað varðar mat, eldsneyti og svo framvegis. Það myndu skapast aðstæður sem líktust frekar stríðssvæði en efnhagsvanda,“ sagði hann ennfremur.
Nick Malkotuzis, ritstjóri Macropolis og aðstoðarritstjóri Kathimerina, tók í sama streng.
„Það eru sennilega sterkustu rökin gegn því að fara úr evrusamstarfinu að við höfum þegar gengið í gegnum fimm ára samdrátt og erfiðar efnahagsaðgerðir. Ef við værum að byrja í dag og segðum að við skyldum skipta alveg mætti kannski ræða það,“ sagði Malkoutiz og bætti við: „En eftir þessi fimm ár og ætla svo að hætta með evruna og ganga í gegnum eitt eða tvö ár, hver veit, enn erfiðari tíma til að komast í stöðu þar sem hlutirnir yrðu kannski skárri, það er mjög mikil áhætta.“

