Memphis Depay er orðinn leikmaður Manchester United en hann skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið í dag.
Depay kemur frá Hollandsmeisturum PSV Eindhoven fyrir 31 milljónir punda, jafngildi 6,3 milljarða króna.
„Það er draumur að rætast fyrir mig. Þetta er nýr kafli í mínu lífi og ég hlakka til að takast á við hann,“ sagði Depay í viðtali á heimasíðu United.
Depay gekkst undir læknisskoðun í síðasta mánuði en ekki var gengið frá félagaskiptunum fyrr en í dag. Depay var markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 22 mörk.
„Ég hef verið hjá PSV síðan ég var tólf ára gamall og ég vil þakka þeim fyrir allt,“ bætti Depay við.
