Norska úrvalsdeildin í fótbolta hófst á ný í dag eftir landsleikjahlé.
Í eina leik dagsins mættust Odd og Start á Skagerak Arena en honum lyktaði með 3-3 jafntefli.
Odd komst í 2-0 eftir 35 mínútna leik en Espen Börufsen minnkaði muninn í 2-1 fyrir Start á 39. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar bætti Jone Samuelsen við marki fyrir Odd.
Staðan var 3-1 í hálfleik og fram á 73. mínútu þegar Matthías Vilhjálmsson minnkaði muninn fyrir Start með skalla af stuttu færi. Á lokamínútunni fékk Start svo vítaspyrnu sem Lars-Jörgen Salvesen skoraði úr og tryggði sínum mönnum jafntefli.
Matthías og félagar eru eftir leikinn í 11. sæti með 13 stig. Odd er hins vegar í því fjórða með 21 stig.
Matthías hefur farið vel af stað á tímabilinu en hann er kominn með fimm mörk og fjórar stoðsendingar í 11 deildarleikjum.
Matthías lék allan leikinn í dag líkt og Guðmundur Kristjánsson. Ingvar Jónsson sat hins vegar allan tímann á varamannabekk Start.
