Ræsingin var tíðindalítil, Sebastian Vettel komst fram úr tveimur bílum á fyrsta hring. Annars gerðist lítið og allir ökumenn höguðu sér vel.
Vettel tók þjónustuhlé á sjöunda hring en eitthvað klikkaði hjá Ferrari og hléið varð ansi langt.
Felipe Massa var iðinn við fram úr akstur í dag og eftir 22 hringi var hann orðinn sjöundi eftir að hafa ræst 15.
„Við verðum nauðsynlega að spara eldsneyti,“ fékk Fernando Alonso að heyra eftir 24 hringi. Svarið frá Alonso var einfaldlega „ég vil það ekki.“
Kimi Raikkonen átti smá augnablik eftir þjónustuhlé og snerist í næst síðustu beygju. Bottas nýtti tækifærið og tók þjónustuhlé og kom út fyrir framan landa sinn, Raikkonen.
Vettel og Nico Hulkenberg á Force India voru búnir að berjast nokkra hringi um sjöunda sætið. Hulkenberg snerist og Vettel þurfti að fara út fyrir brautarmörk til að forðast árekstur.

Romain Grjosean á Lotus klúðraði framúrakstri þegar hann var að hringa Will Stevens á Manor, þeir lentu í samstuði. Grosjean fékk að launum fimm sekúndna refsingu en náði þrátt fyrir það síðasta stigasætinu.
Jenson Button á McLaren hætti keppni á hring 57. McLaren átti ekki góðan dag, hvorugur bíll liðsins komst í mark.
Roberto Merhi á Manor hætti keppni undir lokin, þetta var fyrsta keppnin sem Manor nær ekki að ljúka.
Baráttan innan Mercedes liðsins var búinn að malla alla keppnina og náði svo hámarki undir lok keppninnar. Rosberg hafði þurft að halda bremsunum köldum og Hamilton hafði þurft að spara eldsneyti. Bilið á milli Hamilton og Rosberg var búið að vera nálægt einni og hálfri sekúndu síðan um miðja keppni. Hamilton átti svör við öllum tilraunum Rosberg til að reyna að minnka bilið.
Hér fyrir neðan má sjá gagnvirkt brautarkort af brautinni í Montreal ásamt öllum úrslitum helgarinnar.