Hamilton segist vera að leita nýrra leiða til að vinna í Mónakó. Hamilton hefur aldrei náð ráspól í Mónakó.
Rosberg hefur unnið síðustu tvö ár og vill gjarnan landa þrennunni. Hamilton ætlar sér að gera allt sem í hans valdi stendur til að koma í veg fyrir það.
„Ég hef verið að greina hvar ég hef verið hægari hér undanfarin ár og komist að þeirri niðurstöðu að akstur minn hefur ekki verið fullkominn og á meira inni,“ sagði Hamilton.
„Hér skiptir mestu máli að ná að stilla sig inn á brautina strax. Maður er sífellt að finna smá tíma hér og þar. Það er mikil nákvæmnisvinna að stilla bílnum rétt upp,“ sagði Hamilton.
Margir muna eftir miklu drama í tímatökunni í fyrra. Rosberg var sakaður um að hafa viljandi valdið því að Hamilton fékk ekki tækifæri til að ná ráspól. Rosberg þvertók fyrir að hafa viljandi farið of djúpt í beygjuna.
Tímatakan er í beinnu útsendingu á Stöð 2 Sport og útsendingin hefst klukkan 11:50. Bein útsending frá keppninni hefst klukkan 11:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.
Hér fyrir neðan má sjá alla tíma og öll úrslit helgarinnar í Mónakó í gagnvirku brautarkorti.