Bandarísku veitingakeðjurnar Taco Bell og Pizza Hut hyggjast hætta að nota gervi bragð- og litarefni við matreiðslu. Reuters greinir frá.
Þá hyggst Taco Bell einnig hætta að nota viðbætta transfitu, rotvarnarefni og önnur gerviefni fyrir árslok 2017. Taco Bell segir að breytingarnar muni hafa áhrif á yfir 95 prósent af kjarnavörulínu fyrirtækisins.
Pizza Hut hefur þegar hætt notkun transfitu og MSG við pítsubakstur og aðra matseld. Pizza Hut hyggst hætta notkun gervi litar- og bragðefna um mitt þetta ár.
Taco Bell og Pizza Hut, sem bæði eru í eigu YumFoods, fylgja nú fordæmi fleiri veitingakeðja sem dregið hafa úr notkun gerviefna til að bregðast við auknum áhuga neytenda á hollari lífsstíl.
