Haukar spiluðu frábæran varnarleik í úrslitakeppninni og fengu aðeins á sig 156 mörk í leikjunum átta, eða 22,5 mörk að meðaltali í leik. Í úrslitaeinvíginu fengu Haukar aðeins á sig 20,7 mörk að meðaltali í leik. Það vakti sérstaka athygli hversu vel vörn Hafnfirðinga gekk að halda aftur af Pétri Júníussyni, línumanni Aftureldingar.
Pétur spilaði frábærlega í undanúrslitaeinvíginu gegn ÍR og skoraði þar 26 mörk, eða 5,2 mörk að meðaltali í leik. Hann var sérstaklega heitur í síðustu þremur leikjunum þar sem hann gerði 21 mark en þar af komu níu í oddaleiknum að Varmá sem Mosfellingar unnu 30-29. Pétur var svo verðlaunaður fyrir frammistöðuna með sæti í landsliðshópnum fyrir leikina gegn Serbíu.

Hann fór semsagt því úr því að skora 5,2 mörk að meðaltali gegn ÍR í 1,0 mark að meðaltali gegn Haukum. Pétur tók aðeins sex skot í öllu einvíginu við Hauka og fiskaði aðeins tvö vítaköst.
Vissulega söknuðu Mosfellingar Jóhanns Gunnars Einarssonar sem var duglegur að dæla boltanum inn á línuna í vetur en varnarmenn Hauka fá engu að síður stórt prik í kladdann fyrir framgöngu sína í úrslitunum.
Haukavörnin, með þá Jón Þorbjörn Jóhannsson og Matthías Árna Ingimarsson í broddi fylkingar, hélt einnig aftur af landsliðsmanninum Kára Kristjáni Kristjánssyni í undanúrslitaleikjum við Val.
Kári, sem gekk í raðir ÍBV í gær, skoraði 10 mörk í leikjunm þremur í undanúrslitunum, eða 3,3 mörk að meðaltali í leik. Til samanburðar skoraði Kári 4,0 mörk að meðaltali í leik í deildarkeppninni.
Það má því segja að Haukarnir hafi slökkt í einum núverandi og einum verðandi línumanni í landsliðinu í úrslitakeppninni.