Eftir erfitt tímabil í fyrra virðist Red Bull ekki ganga neitt betur í ár. Þvert á móti virðist liðið hafa dregist aftur úr hestu keppinautum sínum. Ferrari og Williams fengu alveg frið frá Red Bull í Ástralíu.
Red Bull hefur sagt að Renault sé nánast alfarið um að kenna. Renault, sem skaffar liðinu vélar vill hins vegar meina að Red Bull eigi stóran þátt í eigin óförum.
Helmut Marko, sérstakur ráðgjafi Red Bull liðsins hefur sagt það koma til greina að skoða aðra mögulega vélaframleiðendur ef Renault fer ekki að koma með vél sem getur ógnað Mercedes.
Alain Prost, fyrrum heimsmeistari ökumanna og sérstakur sendiherra Renault tók undir kröfur Red Bull um bætingar og sagði „jafnvel þótt þú þurfir stundum að sætta þig við að tapa hugsanlega þá er það bara hluti af keppni en ekki með þessum hætti.“
Christian Horner, liðsstjóri Red Bull var allt annað en sáttur með þróun vélarinnar í vetur.
„Þetta er búin að vera erfið helgi fyrir Renault. Vélin er eiginlega ekki ökuhæf. Það er hægt að sjá það og heyra í athugasemdum ökumanna. Það er ergjandi að sjá að við erum enn aftar en við vorum í Abú Dabí bæði hvað varðar afl og ökufærni vélarinnar,“ sagði Horner eftir frekar mislukkaða helgi í Ástralíu.

„Það er erfitt að vera í samstarfi með aðila sem lýgur. Adrian er heillandi maður og einstakur verkfræðingur en hann hefur gagnrýnt vélaframleiðendur sína alla ævi. Hann er of gamall til að breytast,“ sagði Cyril Abiteboul frá Renault.