Íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason er í viðtali við Tipsblaðið fyrir leik FC Kaupmannahöfn og Esbjerg sem fer fram á sunnudaginn.
Lið FC Kaupmannahöfn vann 3-1 sigur á Bröndby um síðustu helgi en liðið er í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar níu stigum á eftir toppliði Midtjylland, FCK hefur hinsvegar skorað 17 færri mörk þrátt fyrir þessi þrjú í síðustu umferð.
„Það hefur verið vandamál fyrir okkur að skora mörk á þessu tímabili. Þess vegna erum við bara í öðru sæti. Þetta hefur ekki verið nógu gott en við leggjum mikla vinnu í að laga sóknarleikinn," sagði Rúrik Gíslason.
„Vonandi tekst okkur að laga þetta og skora meira á lokakaflanum. Það vita líka allir að það er það skemmtilegasta fyrir stuðningsmennina þegar liðið þeirra skorar mörk," sagði Rúrik.
„Við erum að vinna vel saman sem lið í varnarleiknum og erum ekki að fá á okkur mikið af mörkum. Ég veit ekki af hverju það gengur svona verr í sóknarleiknum því við erum með fjóra góða sóknarmenn. Það má samt ekki gleyma því að lið komast langt á því að spila góða vörn," sagði Rúrik.
Rúrik hefur byrjað færri leiki á þessu tímabili en í fyrra og hann hefur ekki enn náð að skora í dönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
„Ég hef verið fastamaður í liðinu á köflum en ég legg mikið á mig á æfingum til að vinna fyrir mínu sæti í liðinu. Það er mitt markmið að vera fastamaður í liði FCK," sagði Rúrik.
„FCK er með stóran hóp og það er hörð samkeppni um stöðurnar. Mér finnst ég eiga góða möguleika á því að vera í byrjunarliðinu og ég hef fulla trú á sjálfum mér," sagði Rúrik.
Rúrik Gíslason: Við skorum of fá mörk
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


„Komum Gylfa Þór meira í boltann“
Fótbolti



Mac Allister: Liverpool er bara rétt að byrja
Enski boltinn



„Þetta er eins og eldgamla tómatsósan“
Íslenski boltinn

