African Bank Investments sendi frá sér afkomuviðvörun til Kauphallarinnar í Jóhannesarborg í Suður-Afríku í gær þar sem varað var við því að tap ársins hjá bankanum gæti orðið allt að 7,6 milljarðar randa (81,4 milljarðar íslenskra króna).
Þá var frá því greint að stofnandi og forstjóri bankans, Leon Kirknis, hefði látið af störfum.
Greint var frá því að bankinn ætlaði að leita hlutafjáraukningar upp á 8,5 milljarða randa, í kjölfar hlutabréfasölu upp á 5,5 milljónir randa í desember síðastliðnum, að því er fram kemur í umfjöllun Bloomberg.
Bankinn er stærsti veitandi smálána og lána án veðs í Suður-Afríku. Vandræði hans hófust í mars í fyrra þegar Fjármálaeftirlit Suður-Afríku sagði bankann hafa staðið í glannalegum lánveitingum.
Bankinn þurfti þá að falla frá ráðagerðum um að afla 300 milljóna Bandaríkjadala (34,6 milljarða króna) á erlendum fjármálamörkuðum.

