Handbolti

Aron Pálmars: Við erum með frábært sjúkraþjálfarateymi

Henry Birgir Gunnarsson í Herning skrifar
Aron Pálmarsson fékk frí frá æfingum í gær enda er hann ekki í neinu standi til þess að æfa. Hann varð fyrir enn frekari meiðslum í leiknum gegn Spáni.

„Ég sneri mig á hinum ökklanum. Þá er ég með eitt tæpt hné og tvo slæma ökkla. Það er best að ég haldi mér rólegum á milli leikja,“ sagði Aron en hann hefur farið á kostum á EM og það yrði gríðarlegt áfall fyrir liðið að missa hann út.

„Við erum með frábært sjúkraþjálfarateymi sem reynir að tjasla mér saman fyrir leikinn. Ég mun ekki vita fyrr en rétt fyrir leik hversu mikið ég spila. Ég á eftir að fara oft í meðhöndlun fyrir leikinn og það verður að skýrast í upphitun hver staðan á mér er nákvæmlega.“

Aron veit sem er að leikurinn gegn Austurríki verður erfiður enda að mæta miklu seigluliði sem gefst aldrei upp.

„Það eru ekki margar stjörnur í þessu liði eða menn sem spila í stórum liðum. Þeir spila góðan handbolta og berjast mikið. Það er erfitt að spila á móti þeim.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×