Liðsstjóri Red Bull, Christian Horner telur að fjórfaldi heimsmeistarinn Sebastian Vettel hafi grætt á erfiðleikum liðsins á árinu.
Vettel ákvað að yfirgefa Red Bull í október þegar ár var eftir af samningi hans. Hann valdi að fara til Ferrari til að uppfylla æskudraum sinn um að aka fyrir ítalska risann.
„Ég held að þetta hafi verið afar erfitt ár fyrir hann - þroskandi á margan hátt. Hann var afar óheppinn og hlutirnir gengu oftast ekki upp“ sagði Horner.
„Hann er afar hæfileikaríkur og ég held að þetta sé í fyrsta skipti sem liðsfélagi hans endar ofar en hann. Hann hefur lært helling af mikilvægum lexíum,“ bætti Horner við.
Red Bull mun sakna Vettel að sögn Horner. Vettel vann 39 keppnir af 113 sem hann ók fyrir liðið. Daniil Kvyat, sem var fenginn frá systur liðinu Toro Rosso til að aka í stað Vettel hefur fullan stuðning Horner sem hefur tröllatrú á rússneska ungstirninu.
