Bandaríski skemmtigarðurinn Seaworld í Orlando hefur tapað fleiri milljörðum vegna heimildarmyndarinnar Blackfish sem frumsýnd var á síðasta ári. Hlutabréf garðsins hafa fallið um 56 prósent frá frumsýningu myndarinnar í Bandaríkjunum á síðasta ári.
Seaworld birti fyrr í vikunni uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung og virðist enn syrta í álinn. Bæði velta og fjöldi gesta er áberandi verri samanborið við sama tímabil í fyrra og er minnkandi aðsókn almennt rakin til myndarinnar Blackfish.
Í myndinni er meðferð starfsmanna garðsins á háhyrningum harðlega gagnrýnd og sagt frá því hvernig forsvarsmenn garðsins hafa haldið undan uppýsingum um þrjú dauðsföll í garðinum.
Myndin var fyrst sýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í janúar 2013. Magnolia Pictures keypti þá réttinn að myndinni og var myndin frumsýnd í bíóhúsum víðs vegar í Bandaríkjunum í júlí sama ár. Leikstjóri myndarinnar er Gabriela Cowperthwaite.
Seaworld stórtapar á kvikmyndinni Blackfish
