Lærisveinar Ólafs H. Kristjánssonar í Nordsjælland gerðu markalaust jafntefli gegn FC København á heimavelli sínum, Farum Park, í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.
Fyrir leikinn var FCK með tveimur stigum meira en Nordsjælland, en gestirnir frá Kaupmannahöfn urðu fyrir miklu áfalli á 32. mínútu þegar hinum þrautreynda Christian Poulsen var vísað af velli með rautt spjald. Rúrik Gíslason var í kjölfarið tekinn af velli fyrir varnarmanninn Daniel Amartey.
Þrátt fyrir að vera einum fleiri í tæpan klukkutíma tókst leikmönnum Nordsjælland ekki að tryggja sér sigurinn, en liðið hefur nú leikið fimm leiki í röð án þess að vinna.
Eftir leikinn í kvöld eru Ólafur og félagar í 6. sæti með 21 stig, tveimur minna en FCK sem er í 3. sæti. Midtjylland er langefst í deildinni með 34 stig, tíu stigum meira en Randers sem er í öðru sæti.
Rúnar Alex Rúnarsson og Adam Örn Arnarson sátu allan tímann á varamannabekk Nordsjælland í kvöld.
Fyrr í dag unnu nýliðar Hobro öruggan 3-0 sigur á Brøndby á heimavelli.
Hólmbert Aron Friðjónsson lék síðustu 25 mínútur leiksins fyrir Brøndby sem er í 5. sæti með 21 stig. Hobro er tveimur sætum neðar með 20 stig.

