Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, tileinkaði sigurinn á Lettum í kvöld samherja sínum Emil Hallfreðssyni og fjölskyldu hans.
Ísland vann magnaðan útisigur, 3-0, á Lettum og hefur liðið sex stig af sex mögulegum í efsta sæti riðilsins í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.
Emil missti föður sinn, Hallfreð Emilsson, eftir baráttu við krabbamein í síðasta mánuði. Hallfreður lést langt fyrir aldur fram en þrátt fyrir mikinn missi gaf Emil kost á sér í verkefni íslenska landsliðsins sem mætti Lettlandi í Riga í kvöld.
Gylfi setti inn mynd frá leiknum í kvöld á samskiptamiðilinn Instagram og lét hann þessi orð fylgja með; „On to the next one.. Þetta var fyrir þig og þína fjölskyldu, frábær leikur hjá þér emmihall.“
Gylfi Þór skoraði fyrsta mark Íslands í leiknum og braut ísinn. Emil átti frábæran leik fyrir íslenska liðið.

