Leikurinn hefst klukkan 18:45 en fjölmargir stuðningsmenn, klæddir appelsínugulum fatnaði, voru mættir á öldurhús í miðbænum í dag að hita upp. Reikna má með því að þeir láti vel í sér heyra í kvöld.
Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, hitti fyrir eldhressa hollenska stuðningsmenn á English Pub um tvöleytið í dag.
Leikur Íslands og Hollands er í 3. umferð undankeppni EM 2016. Ísland er á toppi riðilsins með sex stig að loknum tveimur leikjum. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi og verður svo gerður upp í þættinum Leiðin til Frakklands á Stöð 2 Sport klukkan 20:45.


