Troels Bech var í morgun rekinn sem þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Odense BK en OB-liðið hefur aðeins náð í sex stig út úr fyrstu níu umferðunum.
Ólafur Kristjánsson, íslenski þjálfarinn hjá FC Nordsjælland, var örlagavaldur Troels Bech því lokaleikur Bech var 1-2 tap á móti Nordsjælland-liðinu í gærkvöldi.
Nordsjælland vann þarna sinn þriðja leik í röð og lærisveinar Ólafs eru komnir upp í annað sæti deildarinnar.
Odense BK er í 11. sæti (fallsæti) en liðið náði aðeins í 1 stig í síðustu 4 leikjum sínum undir stjórn Troels Bech.
Troels Bech er 48 ára gamall og hefur verið með Odense BK frá 2012 en hann þjálfaði einnig liðið 2000-02 og 2004-05.
Dönsku miðlarnir hafa heimildir fyrir því að Ove Pedersen taki við OB-liðinu af Troels Bech en Pedersen hefur áður þjálfað lið eins og FC Vestsjælland, AGF, Esbjerg og FC Midtjylland.
Óli Kristjáns var örlagavaldur Troels Bech
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
