Nordsjælland, undir stjórn Ólafs Kristjánssonar, vann í dag góðan sigur á toppliði Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í dag, 2-1.
Midtjylland hafði unnið fimm leiki í röð en þetta var aðeins annað tap liðsins á tímabilinu. Nordsjælland komst upp í þriðja sæti deildarinnar með sigrinum og er með sextán stig, tveimur á eftir Midtjylland.
Rúnar Alex Rúnarsson var á bekknum hjá Nordsjælland en Eyjólfur Héðinsson var ekki í hópnum hjá Midtjylland.
Fyrr í dag vann FCK sigur á Bröndby, 1-0, og kom Rúrik Gíslason inn á sem varamaður fyrir FCK í síðari hálfleik. Þá gerðu OB og SönderjyskE 1-1 jafntefli. Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn fyrir OB og Hallgrímur Jónasson fyrir SönderjyskE.
FCK er í fimmta sæti deildarinnar með ellefu stig, SönderjyskE með átta stig í áttunda sæti og OB í ellefta og næstneðsta sæti með sex stig.

