Verðandi Noregsmeistarar Molde, sem Björn Bergmann Sigurðarson leikur með, komust í gærkvöldi í úrslitaleik norsku bikarkeppninnar í fótbolta með 1-0 útisigri á Stabæk í undanúrslitum.
Björn Bergmann, sem lítið hefur fengið að spila á tímabilinu, kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik og þótti standa sig vel, en sigurmark Molde skoraði MohamedElyounoussi, góðvinur GuðmundarÞórarinssonar og fyrrverandi samherji hans hjá Sarpsborg.
Guðmundur og félagar eiga einmitt möguleika á að mæta Molde í úrslitaleiknum, en Sarpsborg mætir Odd í hinum undanúrslitaleiknum á útivelli í kvöld. Leikurinn verður í beinni útsendingu í norska ríkissjónvarpinu, NRK 1, sem finna má á fjölvarpinu. Útsendingin hefst klukkan 17.45.
Molde getur unnið tvöfalt í ár, en liðið er með ellefu stiga forskot í deildinni þegar sex umferðir eru eftir. Það er taplaust í síðustu 17 leikjum, en síðast tapaði liðið einmitt fyrir Odd í byrjun apríl.
Sarpsborg er búið að vinna tvo leiki í röð gegn liðum í botnbaráttunni; Sandnes og Sogndal, en á undan því gerði það jafntefli við Odd. Það var gott stig fyrir Guðmund og félaga, en Odd er í öðru sæti deildarinnar á eftir Molde.
