Það er mikil og góð sjóbirtingsveiði víða á Íslandi og þær ár sem mætti nefna nálægt Reykjavík sem eiga ágæta stofna eru t.d. Laxá í Kjós, Brynjudalsá, Korpa og svo auðvitað litla perlan í Hveragerði, Varmá, en hún hefur lengi notið mikilla vinsælda og það ekki að ósekju því í hyljum hennar liggja stórir fiskar.
Hrafn Hauksson fór í Varmá í gær og gerði fantaveiði, hann skrapp eftir hádegi og setti í 12 fiska en náði 5 á land. Þeir sem komu á land voru 50-73 cm og þeir sem hann missti voru á því bili líka, nema einn sem hann missti sem hann telur að hafi verið mun stærri. Mikið líf í öllum hyljum, hann varð var við fiska á öllum stöðum nema 3 hyljum sem hann kastaði í.
