Erlent

Gáfu upp nafn lögreglumannsins sem skaut Michael Brown

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglustjórinn Thomas Jackson gaf upp nafn lögreglumannsins sem skaut Michael Brown til bana.
Lögreglustjórinn Thomas Jackson gaf upp nafn lögreglumannsins sem skaut Michael Brown til bana. Vísir/AP
Lögregluyfirvöld í Ferguson í Bandaríkjunum hafa birt nafn lögreglumannsins sem skaut hinn átján ára Michael Brown á laugardaginn. Upprunalega sagði lögreglustjórinn að nafn hans yrði ekki gefið upp, þar sem honum og fjölskyldu hans hefðu borist lífshótanir.

Lögregluþjónninn heitir Darren Wilson.

Thomas Jackson lögreglustjóri Ferguson sagði á blaðamannafundi í dag að Darren Wilson hafi verið kallaður út, auk annarra lögregluþjóna, vegna ráns í verslun skammt frá þeim stað þar sem Michael Brown var skotinn.

Lögreglan hefur áður sagt að Brown hafi verið skotinn eftir að lögregluþjónn kom að honum í för með öðrum einstaklingi. Að annar þeirra hafi ýtt lögreglumanninum inn í bílinn og reynt að ná af honum byssunni. Einu skoti var hleypt af í bílnum áður en átökin bárust út úr honum. Þá var Brown skotinn nokkrum sinnum, samkvæmt lögreglu.

Dorian Johnson, segir þó aðra sögu. Hann segist hafa verið á gangi með Brown á götunni og lögreglubíll hafi keyrt upp að þeim. Þá segir hann lögregluþjóninn hafa sagt þeim að fara af götunni og upp á gangstétt. Hann segir lögregluþjóninn þá hafa gripið um hálsinn á Brown reynt að draga hann inn í bílinn áður en hann skaut hann.

Hann segir einnig að Brown hafi hlaupið í burtu með hendur á lofti þegar lögregluþjónninn skaut hann aftur.


Tengdar fréttir

Ólga og óeirðir í Ferguson

Mikil ólga hefur verið í bænum Ferguson í Missouri allt frá því lögreglumaður skaut átján ára pilt um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×