Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska knattspyrnulandsliðsins frá upphafi, æfir þessa dagana með OB í Óðinsvéum.
Frá þessu er greint í fjölmörgum dönskum miðlum í morgun, og héldu margir að Englands- og Spánarmeistarinn fyrrverandi væri að reyna að fá samning hjá danska liðinu.
Hann er þó ekki á reynslu eða við það að ganga í raðir liðsins, heldur dvelur hann þar þessa dagana þar sem sonur hans, Sveinn Aron Guðjohnsen, er að keppa á Norðurlandamóti U17 ára landsliða sem fram fer á Fjóni og Jótlandi.
Íslensku strákarnir eru búnir að spila tvo leiki á mótinu og tapa báðum. Þeir steinlágu gegn Englandi, sem er gestaþjóð á mótinu, 5-1, í fyrsta leik og töpuðu svo fyrir Svíum í gær, 1-0.
Eiður Smári er án liðs eftir að samningur hans hjá belgíska liðinu Club Brugge rann út eftir síðasta tímabil.
Ari Freyr Skúlason, bakvörður íslenska landsliðsins, er á mála hjá OB og hafði milligöngu um æfingatíma Eiðs hjá liðinu, að því fram kemur á danska knattspyrnumiðlinum Bold.dk.

