Knattspyrnumaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er á leið í sænsku úrvalsdeildina á ný, en hann skrifar í dag undir samning við Häcken. Morgunblaðið greinir frá þessu.
Gunnar gerði starfslokasamning við tyrkneska liðið Konyaspor, sem hann lék með á síðasta tímabili, og fer því til Häcken án greiðslu. Gunnar skoraði eitt mark í tólf leikjum í Tyrklandi.
Eyjamaðurinn býr yfir mikilli reynslu úr sænsku úrvalsdeildinni. Hann lék með Halmstad á árunum 2004-2006 og varð m.a. markakóngur úrvalsdeildarinnar tímabilið 2005 þegar hann skoraði 16 mörk í 23 leikjum. Á árunum 2011-2013 lék Gunnar svo með Norrköping þar sem hann skoraði 34 mörk í 70 deildarleikjum.
Gunnar hefur einnig leikið með ÍBV, Hannover 96, Våleregna, Fredrikstad, Esbjerg og Reading á ferlinum.
Häcken situr í 3. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig eftir 15 leiki. Liðið er sjö stigum frá toppliði Malmö.
Gunnar Heiðar til Häcken
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
