Helsti sérfræðingur norræna Nordea-bankans um olíuiðnaðinn, Thina Saltvedt, segir fátt benda til þess að olíuútrás Kínverja sé fyrst og fremst til að soga olíuna til eigin heimalands.
Hún fjallar í nýlegri grein í norskum netmiðli um tortryggni manna á Vesturlöndum vegna mikilla fjárfestinga Kínverja í olíuiðnaði heimsins á undanförnum misserum. Hún er ekki ókunnug olíumálefnum Íslendinga en fyrir tveimur árum var hún meðal fyrirlesara á ráðstefnu Arion-banka í Reykjavík um olíu á Drekasvæðinu.
Thina Saltvedt spyr hvort ástæða sé til að óttast fjárfestingar og yfirtökur Kínverja í olíuiðnaðinum og reynir að svara því hvað búi að baki. Hún rekur þær áhyggjur sem birst hafi í fjölmiðlum að þessi ásókn þeirra geti takmarkað aðgengi annarra að olíu á heimsmarkaði. Olíunotkun Kínverja hafi aukist hraðar en olíuframleiðsla þeirra á undanförnum árum. Ein afleiðingin sé sú að Kína sé nú algerlega háð alþjóðamarkaði um kaup á þeirri olíu sem landið þarfnist. Það sé nú stærsti olíuinnflytjandi heims.
Hún nefnir sem dæmi um kínversku olíuútrásina að olíuframleiðsla kínverskra fyrirtækja utan eigin heimalands hafi margfaldast á síðustu tíu árum, úr 140 þúsund tunnum á dag árið 2000 upp í tvær milljónir tunna á dag árið 2012. Á síðustu árum hafi stærsti hluti fjárfestinga þeirra í olíuvinnslu verið undan ströndum Vestur-Afríku, Brasilíu og í Kasakhstan. Þessi þrjú svæði ein standi að baki 19 milljarða dollara, eða 60 prósentum, af fjárfestingum Kínverja á síðustu 20 mánuðum.
Thina telur þessar fjárfestingar benda til að Kínverjar reyni að komast í framleiðslu á mikilvægum vaxtarsvæðum og fá aðgang að nýrri tækni. Með því að vinna við hlið fyrirtækja eins og Total, Shell og Petrobas geti kínversku fyrirtækin fengið aðgang að tækniþekkingu í olíuleit á hafsbotni. Með sama hætti megi skýra fjárfestingar þeirra í vinnslu olíusands í Norður-Ameríku.
Niðurstaða hennar er sú að tortryggnin í garð Kínverja sé ástæðulaus. Hún segir að við nánari skoðun hafi það sýnt sig að hin hraða útrás sé drifin áfram af viðskiptalegum hvötum; kínversku fyrirtækin vilji nýta þau tækifæri sem markaðurinn gefi. Tilgangur fjárfestinganna hafi ekki verið sá að auka flæði olíu til Kína. Stór hluti framleiðslunnar utan Kína sé enda seldur á staðbundnum mörkuðum.