Hólmfríður Magnúsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og stöllur þeirra á Avaldsnes unnu stórsigur á botnliði Grand Bodø í norsku úrvalsdeildinni í dag.
Hin brasilíska Rosana fór á kostum í leiknum og skoraði fernu. Cecilie Pedersen bætti þremur mörkum við, Katie Bethke skoraði tvö mörk og Debora eitt.
Þórunn Helga og Hólmfríður voru báðar í byrjunarliði Avaldnes. Þórunn spilaði allan leikinn en Hólmfríður var tekin út af eftir tæplega klukkustundar leik. Þær voru báðar valdar í íslenska landsliðið sem mætir Danmörku og Möltu í undankeppni HM 2015 á næstu dögum.
Avaldsnes situr nú í 5. sæti með 14 stig, sex stigum á eftir toppliði Stabæk.
