Laxá í Mývatnssveit kemur vel undan vetri og það er ljóst að veiðimenn sem eiga daga þarna á næstunni verða í veislu.
Vaskur hópur manna er við veiðar við ána og þeir virðast vera í góðri töku og vænum fiski. Snjór er alveg horfinn úr dalnum fyrir utan litla skafla ofar í hlíðunum og menn eru almennt sammála um að það vori fyrr við ána miðað við í fyrra. Fiskurinn er að taka hefðbundnar straumflugur en einnig er að veiðast vel á púpu og þurrflugu en í það heila eru komnir um 100 fiskar á land og mikið líf er á flestum veiðistöðum. Örfáar lausar stangir eru í Laxá í Mývatnssveit en meira er laust í Laxárdalinn en það svæði er oft vanmetið því að öllu jöfnu er fiskurinn þar stærri þó það sé ekki jafn mikið af honum og á efra svæðinu. Laxárdalurinn er virkilega skemmtilegt veiðisvæði og þeir sem eiga eftir að prófa það ættu ekki að láta það framhjá sér fara.
Frábær veiði í opnun Laxá í Mývatnssveit
