Guðmundur Þórarinsson og félagar hans í Sarpsborg eru komnir áfram í 3. umferð norsku bikarkeppninnar í fótbolta eftir 1-0 útisigur á Lörenskog í kvöld.
Guðmundur var hetja síns liðs því hann skoraði eina mark leiksins á 75. mínútu. Hann skoraði þarna í öðrum bikarleiknum í röð en Guðmundur var einnig meðal markaskorara liðsins í fyrstu umferðinni.
Pálmi Rafn Pálmason og félagar eru einnig komnir áfram eftir 5-0 útsigur á Moss. Pálmi Rafn var í byrjunarliðinu en fór af velli í hálfleik í stöðunni 4-0.
Birkir Már Sævarsson spilaði allan leikinn með Brann sem vann 2-1 sigur á Stord þrátt fyrir að lenda marki undir eftir aðeins tólf mínútna leiks.
Hjörtur Logi Valgarðsson var í byrjunarliði Sogndal sem vann 2-0 útisigur á Åsane.
