Molde mátti sætta sig við 2-1 tap gegn Odd í fyrsta leik helgarinnar í norsku úrvalsdeildinni.
Björn Bergmann Sigurðarson spilaði allan leikinn í sóknarlínu Molde en hann skoraði annað marka sinna manna í 2-0 sigri gegn Vålerenga í fyrstu umferð mótsins um síðustu helgi.
Daniel Berg Hestad kom Molde yfir en Odd gerði út um leikinn með tveimur mörkum í upphafi síðari hálfleiks.
Önnur umferð mótsins hófst í gær er Viking og Strömsgodset gerðu markalaust jafntefli. Síðarnefnda liðið er með fjögur stig, rétt eins og Odd, á toppi deildarinnar.
