Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) hefur nú blandað sér í leitina að flugvélinni sem týndist á leið sinni frá Kuala Lumpur til Peking þann 8. mars síðastliðinn.
NASA mun greina gervihnattamyndir til að reyna að komast að raun um hvað varð af flugvélinni. Í gögnum NASA er hægt að sjá hluti sem eru rúmlega 10 metrar á stærð og því er ekki útilokað að flugvélin finnist á gervinhattamyndum stofnunarinnar.
Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um afdrif vélarinnar. Nýjustu kenningarnar herma að vélin hafi haldið áfram að senda gögn til gervihnatta í um fimm klukkustundir eftir að hún hvarf af ratsjá. Það þykir benda til þess að hún hafi verið á lofti mun lengur en upphaflega var gert ráð fyrir. Yfirvöld í Malasíu hafa þó sagt að þetta eigi ekki við rök að styðjast.
Hingað til hefur hvorki tangur né tetur fundist af flugvélinni.
NASA blandar sér í leitina að týndu flugvélinni
Jóhannes Stefánsson skrifar
