„Ég kann vel að meta dýr, svo virðist sem ég hafi tilfinningu fyrir þeim,“ segir Vladimír Pútín Rússlandsforseti, sem í dag sást strjúka hlébarðaunga á upptökum rússneska ríkissjónvarpsins.
Myndirnar náðust þegar Pútín sýndi háttsettum fulltrúum Ólympíunefndarinnar um þjóðgarðinn í Sotsjí, þar sem meðal annars er að finna hæli fyrir persneska hlébarða. Var meiningin að sýna fram á að komandi Vetrarólympíuleikar muni hafa jákvæð áhrif á umhverfið í nágrenni við borgina.
Samkvæmt rússneska fréttamiðlinum RIA Novosti hafði hlébarðaunginn Grom (sem merkir þruma) þegar ráðist á tvo fréttamenn sem hættu sér inn í búr hans og sært þá. Pútín hafi þó tekist að róa hið sex mánaða gamla kattardýr og ekki hlotið áverka af. Samkvæmt frásögn RIA Novosti á Pútín einnig að hafa lofað hlébarða fyrir kyngetu sína eftir að gestir fengu að heyra að dýrin geti eðlað sig oftar en 200 sinnum á viku.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem rússneska ríkissjónvarpið ýtir undir útivistarímynd Pútíns með þessum hætti, en hann hefur líka verið sýndur bjarga sjónvarpsliði frá tígrisdýri svo eitthvað sé nefnt.
Pútín róar hlébarðaunga
Bjarki Ármannsson skrifar
