Ástæða breytinganna á bílnum er sú að hann átti að vera fær um að aka með 9 farþega frá Moskvu til Kamchatka skagans, 16.000 kílómetra leið um miklar vegleysur. Það tókst honum og fékk um leið viðurkenningu frá heimsmetabók Guinness fyrir lengstu vegleysuferð yfir eitt einstakt land. Það tók leiðangurinn 66 daga að komast á leiðarenda og var mest ekið á snjó.
Þessi bíll, eins og sést á myndinni, er talsvert breyttur og hefur fengið stærri og grófari dekk, slaglengri fjöðrun, veltigrind, fullkomið leiðsögukerfi og að sjálfsögðu þurfti að taka mikið af brettunum til að koma risastórum dekkjunum fyrir. Lítið var átt við 2,0 lítra dísilvélina, enda var markmið leiðangursins ekki að fara sem hraðast yfir heldur á sem ábyggilegastan hátt og án bilana.
