Handbolti

Kári: Síðasti Ungverjaleikur var viðbjóður

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
„Þetta var mjög vont og á þessum tímapunkti var það mjög hentugt að þetta væri mjög vont,“ sagði línutröllið Kári Kristján Kristjánsson léttur en hann var sakaður um að taka dýfu í leiknum gegn Norðmönnum.

„Strákurinn kýldi mig aðeins í bakið en ég stóð uppréttur eftir þetta.“

Kári gerir ráð fyrir miklum átökum gegn stórum og sterkum Ungverjum.

„Þetta er miklu stærri og þyngri gæjar. Þeir eru því ekki eins hreyfanlegir og Norðmennirnir. Norsarnir pökkuðu á okkur línumennina og því skoruðum við ekki mark gegn þeim. Þetta verður aðeins öðruvísi núna.“

Kári var með Íslandi er það tapaði á grátlegan hátt gegn Ungverjum á ÓL í London. Hann hefur ekki gleymt því tapi.

„Það var viðbjóður og rosalega leiðinlegt. Ég vil tala sem minnst um það enda er búið að banna að sýna þann leik opinberlega,“ sagði Kári en hann hefur ekki séð leikinn aftur frekar en félagar hans.

„Ég hef ekki tekið popp og kók á laugardagskvöldi og skellt leiknum í tækið.“

Kári skartar miklu skeggi þessa dagana. Svo loðinn er hann orðinn að gárungarnir eru byrjaðir að kalla hann Fenrisúlfinn. Hann segir að konan sé himinlifandi með skeggið.

„Þetta poppar upp á heimilishaldið,“ sagði Kári og hló við.

Viðtalið við Kára í heild sinni má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×