Það er nefnilega vitlaust gefið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. nóvember 2013 15:19 Nokkuð klókt hjá forsætisráðherra að reyna að gera sig að talsmanni svokallaðrar millistéttar. Þar er fjöldafylgið. Við höfum upp til hópa þá sjálfsmynd að við tilheyrum millistétt, en séum hvorki yfirstéttar-afætur né þurfalingar.Millistétt – hvaða fólk er nú það? Millistétt. Hvaða fólk er það eiginlega og hvaða hagsmuni hefur það? Það er nú það. Sum störf krefjast ekki langskólamenntunar en eru samt sérhæfð og krefjast þekkingar og eiginleika sem þykja eftirsóknarverðir – sjómannsstarfið til dæmis. Eru þeir millistétt? Eða kannski bara sérstök stétt? Marx hefði kallað þá öreigalýð, sem sýnir nú hversu mikið byggjandi er á honum … Sjómenn eru sumir á forstjóralaunum, og flest erum við væntanlega á þeirri skoðun að þeir séu vel að því komnir. Öllu verra gengur að borga langskólagengnu fólki þau laun sem því ber, hvernig sem á því stendur. Ísland er vellauðugt samfélag – en í hvað fara eiginlega allir peningarnir hér? Ekki í launagreiðslur til háskólagengins fólks, svo mikið er víst. Afleiðingin er sú að smám saman fækkar slíku fólki. Það getur haft ískyggilegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild. Ríkisstjórnin hefur hingað til ekki haft sjáanlegar áhyggjur af þeirri þróun en virðist miða stefnu sína við það að vernda hagsmuni tiltekinna hópa samfélagsins – bænda og útvegsmanna – á kostnað almennra lífskjara. Þannig hefur ríkisstjórnin ákveðið að koma í veg fyrir að niðurstaða fáist af aðildarviðræðum við ESB; við fáum ekki að vita hvað hugsanleg aðild táknar fyrir lífskjör á landinu, þótt flest bendi til þess að slík aðild með upptöku evru þýði lækkun vaxta, hærra kaup, aukna verðmætasköpun, verðlækkun á matvöru og öðrum nauðsynjum. Í staðinn gefst okkur nú kostur á því að kaupa á uppsprengdu verði evrópska kjúklinga sem sagðir eru alíslenskir hugsjónakjúklingar. Hvort skyldi nú vera í þágu millistéttarinnar – að borða evrópskan kjúkling í íslenskum pakkningum (og borga fyrir þær ómælt fé) eða að fá að velja úr evrópskri matvöru sjálfur með tilheyrandi kennd um að búa ekki við algjöra einangrun? Umfram allt myndi aðild að ESB hjálpa Íslendingum við að losna undan þeim gjaldeyrishöftum sem hét liggja eins og dauðinn sjálfur á öllu viðskiptalífi en verður ekki aflétt á meðan við búum við krónukrílið, nema með skelfilegum afleiðingum – óðaverðbólgu og hroðalegum gengisfellingum, sem er ein eftirlætisaðferð útgerðarmanna við að lækka kaupið hjá öllum öðrum en sér – einkum þó millistéttinni. Vandséð er hvaða hag svokölluð millistétt á að hafa af áformum framsóknarmanna í efnahagsmálum, sem virðast snúast um að innleiða hér á ný efnahagsúrræði framsóknaráratugarins sem fólk á miðjum aldri man vonandi enn, og var ekki leyst úr þeim vandræðum fyrr en aðilar vinnumarkaðarins tóku efnahagsmálin af framsóknarmönnum með þjóðarsáttinni. Í stað raunhæfra úrræða eru viðraðir draumar um að gerast vel launaðir þjónar á Grænlandi fyrir kínversku alræðisstjórnina. Og finna olíu – hún bara hlýtur að finnast – hún hreinlega verður að finnast. Hægt að slá mikil lán út á þann fund. Fleira? Jú, að láta Seðlabankann prenta peninga til skuldaleiðréttinga, og stefna að afnámi verðtryggingar. Verðtryggingin var vel að merkja eitt af því sem stöðvaði það tryllingslega efnahagslíf sem einkenndi framsóknaráratuginn. Úrræði forsætisráðherrans eru með öðrum orðum þau að innleiða á ný framsóknaráratuginn. Kannski vilja margir þetta – en ekki blasir það nú beinlínis við að það sé í þágu íslenskrar millistéttar.Hér er nóg vinna Formaður fjárlaganefndar og helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, Vigdís Hauksdóttir, blandaði sér um daginn í umræður um slæmar heimtur á ungum læknum og stakk upp á því að komið yrði á fót læknanámi á Akureyri (þar sem það hefur reyndar verið um árabil, sem sýnir þá umhugsun sem býr að baki ummælunum) og í öðru lagi að þeir læknar sem ekki snúi aftur heim heldur setjist að erlendis verði látnir finna fyrir svikum sínum með hærri og stífari endurgreiðslum á námslánum. Því ekki það? Þeir finna reyndar tæpast fyrir því, svo miklu betri laun fá þeir erlendis, í alvöru gjaldmiðli, í alvöru efnahagsumhverfi. En við löðum ekki fólk að okkur með því að refsa því. Lausnin á vandanum er ekki sú að gnísta tönnum og heimta hraðari endurgreiðslur heldur hin að skapa hér samfélag þar sem ungt og vel menntað fólk getur hugsað sér að lifa og starfa og vera til; enda er það héðan og Ísland eðlilegur kostur þegar fólk veltir fyrir sér búsetu. Það gerum við með fjölbreyttum atvinnuháttum, fjölbreyttu og skemmtilegu menningarlífi (sem kostar), sérhæfingu. Annars breytist Ísland í eitt af þessum plássum sem maður sá stundum viðtöl úr í seinni fréttum sjónvarpsins í gamla daga þar sem einhver kall var að tala um góðar gæftir en alltof fátt fólk til að vinna fiskinn og sagði algerlega yfirkominn af hneykslun og undrun: Hér er nóg vinna … Það þarf að hætta að senda okkur, íbúum landsins, þessi skilaboð: Spurðu ekki hvað landið getur gert fyrir þig. Spurðu heldur hvað þú getur gert fyrir útgerðarmennina. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Nokkuð klókt hjá forsætisráðherra að reyna að gera sig að talsmanni svokallaðrar millistéttar. Þar er fjöldafylgið. Við höfum upp til hópa þá sjálfsmynd að við tilheyrum millistétt, en séum hvorki yfirstéttar-afætur né þurfalingar.Millistétt – hvaða fólk er nú það? Millistétt. Hvaða fólk er það eiginlega og hvaða hagsmuni hefur það? Það er nú það. Sum störf krefjast ekki langskólamenntunar en eru samt sérhæfð og krefjast þekkingar og eiginleika sem þykja eftirsóknarverðir – sjómannsstarfið til dæmis. Eru þeir millistétt? Eða kannski bara sérstök stétt? Marx hefði kallað þá öreigalýð, sem sýnir nú hversu mikið byggjandi er á honum … Sjómenn eru sumir á forstjóralaunum, og flest erum við væntanlega á þeirri skoðun að þeir séu vel að því komnir. Öllu verra gengur að borga langskólagengnu fólki þau laun sem því ber, hvernig sem á því stendur. Ísland er vellauðugt samfélag – en í hvað fara eiginlega allir peningarnir hér? Ekki í launagreiðslur til háskólagengins fólks, svo mikið er víst. Afleiðingin er sú að smám saman fækkar slíku fólki. Það getur haft ískyggilegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið í heild. Ríkisstjórnin hefur hingað til ekki haft sjáanlegar áhyggjur af þeirri þróun en virðist miða stefnu sína við það að vernda hagsmuni tiltekinna hópa samfélagsins – bænda og útvegsmanna – á kostnað almennra lífskjara. Þannig hefur ríkisstjórnin ákveðið að koma í veg fyrir að niðurstaða fáist af aðildarviðræðum við ESB; við fáum ekki að vita hvað hugsanleg aðild táknar fyrir lífskjör á landinu, þótt flest bendi til þess að slík aðild með upptöku evru þýði lækkun vaxta, hærra kaup, aukna verðmætasköpun, verðlækkun á matvöru og öðrum nauðsynjum. Í staðinn gefst okkur nú kostur á því að kaupa á uppsprengdu verði evrópska kjúklinga sem sagðir eru alíslenskir hugsjónakjúklingar. Hvort skyldi nú vera í þágu millistéttarinnar – að borða evrópskan kjúkling í íslenskum pakkningum (og borga fyrir þær ómælt fé) eða að fá að velja úr evrópskri matvöru sjálfur með tilheyrandi kennd um að búa ekki við algjöra einangrun? Umfram allt myndi aðild að ESB hjálpa Íslendingum við að losna undan þeim gjaldeyrishöftum sem hét liggja eins og dauðinn sjálfur á öllu viðskiptalífi en verður ekki aflétt á meðan við búum við krónukrílið, nema með skelfilegum afleiðingum – óðaverðbólgu og hroðalegum gengisfellingum, sem er ein eftirlætisaðferð útgerðarmanna við að lækka kaupið hjá öllum öðrum en sér – einkum þó millistéttinni. Vandséð er hvaða hag svokölluð millistétt á að hafa af áformum framsóknarmanna í efnahagsmálum, sem virðast snúast um að innleiða hér á ný efnahagsúrræði framsóknaráratugarins sem fólk á miðjum aldri man vonandi enn, og var ekki leyst úr þeim vandræðum fyrr en aðilar vinnumarkaðarins tóku efnahagsmálin af framsóknarmönnum með þjóðarsáttinni. Í stað raunhæfra úrræða eru viðraðir draumar um að gerast vel launaðir þjónar á Grænlandi fyrir kínversku alræðisstjórnina. Og finna olíu – hún bara hlýtur að finnast – hún hreinlega verður að finnast. Hægt að slá mikil lán út á þann fund. Fleira? Jú, að láta Seðlabankann prenta peninga til skuldaleiðréttinga, og stefna að afnámi verðtryggingar. Verðtryggingin var vel að merkja eitt af því sem stöðvaði það tryllingslega efnahagslíf sem einkenndi framsóknaráratuginn. Úrræði forsætisráðherrans eru með öðrum orðum þau að innleiða á ný framsóknaráratuginn. Kannski vilja margir þetta – en ekki blasir það nú beinlínis við að það sé í þágu íslenskrar millistéttar.Hér er nóg vinna Formaður fjárlaganefndar og helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, Vigdís Hauksdóttir, blandaði sér um daginn í umræður um slæmar heimtur á ungum læknum og stakk upp á því að komið yrði á fót læknanámi á Akureyri (þar sem það hefur reyndar verið um árabil, sem sýnir þá umhugsun sem býr að baki ummælunum) og í öðru lagi að þeir læknar sem ekki snúi aftur heim heldur setjist að erlendis verði látnir finna fyrir svikum sínum með hærri og stífari endurgreiðslum á námslánum. Því ekki það? Þeir finna reyndar tæpast fyrir því, svo miklu betri laun fá þeir erlendis, í alvöru gjaldmiðli, í alvöru efnahagsumhverfi. En við löðum ekki fólk að okkur með því að refsa því. Lausnin á vandanum er ekki sú að gnísta tönnum og heimta hraðari endurgreiðslur heldur hin að skapa hér samfélag þar sem ungt og vel menntað fólk getur hugsað sér að lifa og starfa og vera til; enda er það héðan og Ísland eðlilegur kostur þegar fólk veltir fyrir sér búsetu. Það gerum við með fjölbreyttum atvinnuháttum, fjölbreyttu og skemmtilegu menningarlífi (sem kostar), sérhæfingu. Annars breytist Ísland í eitt af þessum plássum sem maður sá stundum viðtöl úr í seinni fréttum sjónvarpsins í gamla daga þar sem einhver kall var að tala um góðar gæftir en alltof fátt fólk til að vinna fiskinn og sagði algerlega yfirkominn af hneykslun og undrun: Hér er nóg vinna … Það þarf að hætta að senda okkur, íbúum landsins, þessi skilaboð: Spurðu ekki hvað landið getur gert fyrir þig. Spurðu heldur hvað þú getur gert fyrir útgerðarmennina.