Ekki segja svart, ekki segja hvítt Friðrika Benónýsdóttir skrifar 30. október 2013 06:00 Megineinkenni íslenskrar umræðuhefðar er tortryggnin. Allir sem viðra skoðanir sínar, beðnir eða óumbeðnir, eru grunaðir um að reka erindi einhvers annars en sjálfs sín. Þeir hljóta að hafa einhvern annan málstað að verja en liggur í augum uppi. Það hlýtur að vera eitthvert plott í pokahorninu. Það virðist vera óhugsandi að fólk myndi sér skoðanir út frá eigin hyggjuviti og menntun óháð því hvort sú skoðun er þóknanleg þessum eða hinum pólitíska arminum, og þá er átt við pólitík í víðasta skilningi. Það er alltaf leitað að tengslum viðkomandi við þetta eða hitt batteríið og því veifað sigri hrósandi að þessi hafi sko einu sinni sést á fundi hjá femínistum eða mætt í partí í Valhöll. Sem sagt verið einhvers staðar þar sem hann hafi fengið línuna lagða. Fólk æsir sig yfir því að fræðimenn í sömu grein séu ekki sammála um leiksýningu, að sú sem lofar hana hljóti að stjórnast af feminískum öfgum og sá sem lastar hana hljóti að aðhyllast gamaldags hugmyndafræði hvítra miðaldra karlskrögga. Rökin eru þau að þar sem viðkomandi aðilar séu menntaðir í sömu fræðigrein hljóti þau að eiga að komast að sömu niðurstöðu nema einhver annarleg sjónarmið séu undirliggjandi. Eins og það sé ekki akkúrat drifkraftur fræðanna að fólk nálgast þau frá ólíkum sjónarhornum og varpar mismunandi ljósi á þau. Sama gildir um þá sem tjá sig um nýjan þjóðmálaþátt í sjónvarpi hvort sem er til lofs eða lasts. Þeim er umsvifalaust skipað á ystu brúnir andstæðra vængja stjórnmálanna og öll sú umræða ratar beinustu leið út í skurð. Það er sem sagt ekki inni í myndinni að fólki geti líkað eitthvað sem pólitískir andstæðingar hafa fram að færa eða mislíkað einhver nálgun samherja í tíkinni þeirri. Út frá því virðist gengið að allir hafi gengist undir einhvern trúnaðareið um það að hafa aldrei nokkra sjálfstæða skoðun á nokkrum hlut. Og undir öllu kraumar sú landlæga firra að ef þú aðhyllist einhverja ákveðna skoðun í ákveðnu máli þá leiði það af sjálfu sér að þú hafir þessa eða hina skoðunina á öllum öðrum málum. Þú ert annað hvort í þessu liði eða hinu og öll frávik frá stefnu liðsins virðast svo fáránlega langsótt hugmynd að hún er aldrei einu sinni dregin fram. Þessi stimplunarárátta og tortryggni eyðileggur alla opinbera umræðu á Íslandi. Það er endalaust ekið í hringi, helst með skítadreifara í eftirdragi, og árangurinn verður í samræmi við það. Engu er breytt, engir nýir vinklar leyfðir, umræðan hjakkar í sama farinu og sömu málin koma upp ár eftir ár eftir ár með sömu formerkjum og sömu grátlegu niðurstöðu, eða niðurstöðuleysi öllu heldur. Það er líkast því að í gangi sé endalaus umferð af Frúnni í Hamborg þar sem sá sem spurður er má hvorki segja svart né hvítt, já né nei án þess að vera umsvifalaust dæmdur úr leik. Og umræðan um sömu málin, eða náskyld mál, byrjar aftur á byrjunarreit í næstu umferð. Svo eru allir steinhissa á að hér verði lítil framþróun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Friðrika Benónýsdóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun
Megineinkenni íslenskrar umræðuhefðar er tortryggnin. Allir sem viðra skoðanir sínar, beðnir eða óumbeðnir, eru grunaðir um að reka erindi einhvers annars en sjálfs sín. Þeir hljóta að hafa einhvern annan málstað að verja en liggur í augum uppi. Það hlýtur að vera eitthvert plott í pokahorninu. Það virðist vera óhugsandi að fólk myndi sér skoðanir út frá eigin hyggjuviti og menntun óháð því hvort sú skoðun er þóknanleg þessum eða hinum pólitíska arminum, og þá er átt við pólitík í víðasta skilningi. Það er alltaf leitað að tengslum viðkomandi við þetta eða hitt batteríið og því veifað sigri hrósandi að þessi hafi sko einu sinni sést á fundi hjá femínistum eða mætt í partí í Valhöll. Sem sagt verið einhvers staðar þar sem hann hafi fengið línuna lagða. Fólk æsir sig yfir því að fræðimenn í sömu grein séu ekki sammála um leiksýningu, að sú sem lofar hana hljóti að stjórnast af feminískum öfgum og sá sem lastar hana hljóti að aðhyllast gamaldags hugmyndafræði hvítra miðaldra karlskrögga. Rökin eru þau að þar sem viðkomandi aðilar séu menntaðir í sömu fræðigrein hljóti þau að eiga að komast að sömu niðurstöðu nema einhver annarleg sjónarmið séu undirliggjandi. Eins og það sé ekki akkúrat drifkraftur fræðanna að fólk nálgast þau frá ólíkum sjónarhornum og varpar mismunandi ljósi á þau. Sama gildir um þá sem tjá sig um nýjan þjóðmálaþátt í sjónvarpi hvort sem er til lofs eða lasts. Þeim er umsvifalaust skipað á ystu brúnir andstæðra vængja stjórnmálanna og öll sú umræða ratar beinustu leið út í skurð. Það er sem sagt ekki inni í myndinni að fólki geti líkað eitthvað sem pólitískir andstæðingar hafa fram að færa eða mislíkað einhver nálgun samherja í tíkinni þeirri. Út frá því virðist gengið að allir hafi gengist undir einhvern trúnaðareið um það að hafa aldrei nokkra sjálfstæða skoðun á nokkrum hlut. Og undir öllu kraumar sú landlæga firra að ef þú aðhyllist einhverja ákveðna skoðun í ákveðnu máli þá leiði það af sjálfu sér að þú hafir þessa eða hina skoðunina á öllum öðrum málum. Þú ert annað hvort í þessu liði eða hinu og öll frávik frá stefnu liðsins virðast svo fáránlega langsótt hugmynd að hún er aldrei einu sinni dregin fram. Þessi stimplunarárátta og tortryggni eyðileggur alla opinbera umræðu á Íslandi. Það er endalaust ekið í hringi, helst með skítadreifara í eftirdragi, og árangurinn verður í samræmi við það. Engu er breytt, engir nýir vinklar leyfðir, umræðan hjakkar í sama farinu og sömu málin koma upp ár eftir ár eftir ár með sömu formerkjum og sömu grátlegu niðurstöðu, eða niðurstöðuleysi öllu heldur. Það er líkast því að í gangi sé endalaus umferð af Frúnni í Hamborg þar sem sá sem spurður er má hvorki segja svart né hvítt, já né nei án þess að vera umsvifalaust dæmdur úr leik. Og umræðan um sömu málin, eða náskyld mál, byrjar aftur á byrjunarreit í næstu umferð. Svo eru allir steinhissa á að hér verði lítil framþróun.