Svona virkar einræðið Guðmundur Andri Thorsson skrifar 19. ágúst 2013 07:00 Þegar ég var strákur fór ekki hjá því stundum að maður yrði var við það þegar leiðindaskarfarnir úr Flokkunum voru að hringja í móður mína sem þá var fréttastjóri á Fréttastofu útvarpsins. Þeir sátu með skeiðklukkur og mældu tímann sem þeir fengu og svo „hinir“ og ef skeikaði fimm sekúndum kröfðust þeir leiðréttinga, upp á sekúndu. Móðir mín lét sér þetta í léttu rúmi liggja enda leit hún ekki á sig sem þjón þessara manna heldur almennings. Hún leit svo á að hún hefði skyldum að gegna við eigendur Ríkisútvarpsins – fólkið í landinu sem greiddi afnotagjöldin. Stjórnmálamennirnir litu svo á að þeir ættu sjálfir að stjórna því hvernig fréttum af sér yrði háttað. Hún hélt nú ekki. Enda höfðu þeir sín rör að tala í – á Mogga og Þjóðvilja og hvað þau hétu nú þessi flokksblöð – og í sumum rörunum ýlir enn.Að vera fréttamaður Fréttamaður er ekki vinstri sinnaður eða hægri sinnaður heldur fréttasinnaður; ekki Evrópusinnaður eða þjóðhyggjusinnaður heldur upplýsingasinnaður; ekki á vegum Jesú, Búdda eða Óðins heldur spurningarinnar: það að vera fréttamaður er lífsafstaða í sjálfu sér. Þau sem eru fréttamenn leita upplýsinga og telja það skyldu sína að miðla þeim upplýsingum til almennings á eins greinargóðan hátt og þeim er frekast unnt. Þau gegna ákaflega mikilsverðu hlutverki í samfélaginu – ekkert síður en stjórnmálamenn þó fréttamenn fái að sönnu ekki jafn mikið kaup. Starfsfólk Ríkisútvarpsins er sem sagt í þjónustu almennings. Það eru líka stjórnmálamenn – meira að segja stjórnmálamenn sem komast til metorða og mannvirðinga: þeir eru líka þjónar. Þeir mega aldrei líta svo á að starfsfólk Ríkissútvarpsins sé þjónar þeirra. Útvarpsfólkið gegnir eftirlitsskyldu gagnvart störfum stjórnmálamannanna, fyrir almenning. Það er beinlínis hlutverk fréttamannsins að spyrja óþægilegra spurninga sem jafnvel geta verið pirrandi og virkað alveg fráleitar út frá sjónarhóli þess sem spurður er, og segja frá hlutum sem kunna að koma sér illa fyrir einhverja. Fréttamaður er ekki þerapisti. Hann er ekki sálgæsluaðili. Hann er ekki vinur eða óvinur. Og hann er ekki rör. Fréttamaðurinn starfar á vettvangi þar sem atburðir verða, upplýsingar þjóta fram og til baka, álitamálið hrannast upp. Fréttamönnum getur skjátlast (eins við munum í aðdraganda Íraksstríðsins þegar þeir voru of trúgjarnir); þeir geta verið ósanngjarnir, þeir geta ruglast. En þeir starfa af heilindum.Vigdís þarf að víkja Svona virka vestræn lýðræðisríki: stjórnmálamenn eiga ekki að hafa boðvald yfir fréttamönnum og eiga ekki að geta stýrt því hvernig fréttamenn fjalla um það hvernig þeir sjálfir stunda sitt starf. Þeir mega aldrei komast í aðstöðu til þess. Þannig er verkaskiptingin, og við henni má ekki hrófla – lýðræðið sjálft er þá í húfi. Gerist það að stjórnmálamaður, sem hefur áhrif á fjárframlög til ríkisfjölmiðilsins, tengi sjálfur umfjöllun fjölmiðilsins um sig við völd sín yfir fjármálum fjölmiðilsins – segi eitthvað á þá leið að fjölmiðilinn hafi sýnt sér ósanngirni og dragi taum andstæðinga sinna og við því muni hann bregðast með því að skera niður framlög til viðkomandi fjölmiðils sem sé „ekki að standa sig“ – gerist slíkt í lýðræðisríki þá hefur viðkomandi stjórnmálamaður sýnt fram á vanhæfi sitt og skilningsleysi á starfi sínu. Þetta gerði Vigdís Hauksdóttir um daginn. Hún tengdi óánægju sína með lítilfjörlega missögn í endursögn fréttamanns á tali hennar um IPA-styrkina beint við stöðu sína í svonefndum hagræðingarhópi ríkistjórnarinnar. Þetta gerði hún í samtali við Bylgjuna. Þetta er býsna alvarlegt mál, og ekki hægt að líta á þetta eins og hvert annað gaspur í athyglissjúkum stjórnmálamanni að reyna að æpa sig inn í fréttatímana. Þetta er markviss viðleitni til að terrorísera fjölmiðilinn, ná stjórn á honum; láta næsta fréttamann sem þarf að segja frá verkum og orðum Vigdísar Hauksdóttur hugsa sig tvisvar um: Hún ræður því hvort ég held vinnunni, hvort yfirleitt verður hér einhver starfsemi, best að styggja hana ekki – best að gleðja hana. Svona virkar ekki lýðræðið. Svona virkar einræðið. Vandséð er hvort er verra, sjálf hótun Vigdísar Hauksdóttur eða hitt, að hún komist upp með hana. Geri hún það hefur íslensk stjórnmálamenning færst enn neðar en áður. Komist Vigdís upp með hótanir sínar hefur henni tekist að skapa andrúmsloft ótta og sjálfsritskoðunar kringum sig, hún hefur brotið siðareglur sem alls staðar eru gerðar til stjórnmálamanna í þeim lýðræðisríkjum sem flest okkar vilja að Ísland miði sig við, hún hefur seilst langt út fyrir verksvið sitt, misnotað aðstöðu sína í þjónustu almennings í eigin þágu og haft í hótunum við starfsfólk almannastofnunar sem ekki hefur gert annað en að reyna að sinna vinnu sinni af þeirri trúmennsku sem óskandi væri að Vigdís Hauksdóttir reyndi einhvern tímann að tileinka sér. Manneskja sem sýnir slík viðhorf til valda á ekki að hafa völd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun Opið bréf til undirbúningskjörbréfanefndar Alþingis Jóhann Friðrik Friðriksson, Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun
Þegar ég var strákur fór ekki hjá því stundum að maður yrði var við það þegar leiðindaskarfarnir úr Flokkunum voru að hringja í móður mína sem þá var fréttastjóri á Fréttastofu útvarpsins. Þeir sátu með skeiðklukkur og mældu tímann sem þeir fengu og svo „hinir“ og ef skeikaði fimm sekúndum kröfðust þeir leiðréttinga, upp á sekúndu. Móðir mín lét sér þetta í léttu rúmi liggja enda leit hún ekki á sig sem þjón þessara manna heldur almennings. Hún leit svo á að hún hefði skyldum að gegna við eigendur Ríkisútvarpsins – fólkið í landinu sem greiddi afnotagjöldin. Stjórnmálamennirnir litu svo á að þeir ættu sjálfir að stjórna því hvernig fréttum af sér yrði háttað. Hún hélt nú ekki. Enda höfðu þeir sín rör að tala í – á Mogga og Þjóðvilja og hvað þau hétu nú þessi flokksblöð – og í sumum rörunum ýlir enn.Að vera fréttamaður Fréttamaður er ekki vinstri sinnaður eða hægri sinnaður heldur fréttasinnaður; ekki Evrópusinnaður eða þjóðhyggjusinnaður heldur upplýsingasinnaður; ekki á vegum Jesú, Búdda eða Óðins heldur spurningarinnar: það að vera fréttamaður er lífsafstaða í sjálfu sér. Þau sem eru fréttamenn leita upplýsinga og telja það skyldu sína að miðla þeim upplýsingum til almennings á eins greinargóðan hátt og þeim er frekast unnt. Þau gegna ákaflega mikilsverðu hlutverki í samfélaginu – ekkert síður en stjórnmálamenn þó fréttamenn fái að sönnu ekki jafn mikið kaup. Starfsfólk Ríkisútvarpsins er sem sagt í þjónustu almennings. Það eru líka stjórnmálamenn – meira að segja stjórnmálamenn sem komast til metorða og mannvirðinga: þeir eru líka þjónar. Þeir mega aldrei líta svo á að starfsfólk Ríkissútvarpsins sé þjónar þeirra. Útvarpsfólkið gegnir eftirlitsskyldu gagnvart störfum stjórnmálamannanna, fyrir almenning. Það er beinlínis hlutverk fréttamannsins að spyrja óþægilegra spurninga sem jafnvel geta verið pirrandi og virkað alveg fráleitar út frá sjónarhóli þess sem spurður er, og segja frá hlutum sem kunna að koma sér illa fyrir einhverja. Fréttamaður er ekki þerapisti. Hann er ekki sálgæsluaðili. Hann er ekki vinur eða óvinur. Og hann er ekki rör. Fréttamaðurinn starfar á vettvangi þar sem atburðir verða, upplýsingar þjóta fram og til baka, álitamálið hrannast upp. Fréttamönnum getur skjátlast (eins við munum í aðdraganda Íraksstríðsins þegar þeir voru of trúgjarnir); þeir geta verið ósanngjarnir, þeir geta ruglast. En þeir starfa af heilindum.Vigdís þarf að víkja Svona virka vestræn lýðræðisríki: stjórnmálamenn eiga ekki að hafa boðvald yfir fréttamönnum og eiga ekki að geta stýrt því hvernig fréttamenn fjalla um það hvernig þeir sjálfir stunda sitt starf. Þeir mega aldrei komast í aðstöðu til þess. Þannig er verkaskiptingin, og við henni má ekki hrófla – lýðræðið sjálft er þá í húfi. Gerist það að stjórnmálamaður, sem hefur áhrif á fjárframlög til ríkisfjölmiðilsins, tengi sjálfur umfjöllun fjölmiðilsins um sig við völd sín yfir fjármálum fjölmiðilsins – segi eitthvað á þá leið að fjölmiðilinn hafi sýnt sér ósanngirni og dragi taum andstæðinga sinna og við því muni hann bregðast með því að skera niður framlög til viðkomandi fjölmiðils sem sé „ekki að standa sig“ – gerist slíkt í lýðræðisríki þá hefur viðkomandi stjórnmálamaður sýnt fram á vanhæfi sitt og skilningsleysi á starfi sínu. Þetta gerði Vigdís Hauksdóttir um daginn. Hún tengdi óánægju sína með lítilfjörlega missögn í endursögn fréttamanns á tali hennar um IPA-styrkina beint við stöðu sína í svonefndum hagræðingarhópi ríkistjórnarinnar. Þetta gerði hún í samtali við Bylgjuna. Þetta er býsna alvarlegt mál, og ekki hægt að líta á þetta eins og hvert annað gaspur í athyglissjúkum stjórnmálamanni að reyna að æpa sig inn í fréttatímana. Þetta er markviss viðleitni til að terrorísera fjölmiðilinn, ná stjórn á honum; láta næsta fréttamann sem þarf að segja frá verkum og orðum Vigdísar Hauksdóttur hugsa sig tvisvar um: Hún ræður því hvort ég held vinnunni, hvort yfirleitt verður hér einhver starfsemi, best að styggja hana ekki – best að gleðja hana. Svona virkar ekki lýðræðið. Svona virkar einræðið. Vandséð er hvort er verra, sjálf hótun Vigdísar Hauksdóttur eða hitt, að hún komist upp með hana. Geri hún það hefur íslensk stjórnmálamenning færst enn neðar en áður. Komist Vigdís upp með hótanir sínar hefur henni tekist að skapa andrúmsloft ótta og sjálfsritskoðunar kringum sig, hún hefur brotið siðareglur sem alls staðar eru gerðar til stjórnmálamanna í þeim lýðræðisríkjum sem flest okkar vilja að Ísland miði sig við, hún hefur seilst langt út fyrir verksvið sitt, misnotað aðstöðu sína í þjónustu almennings í eigin þágu og haft í hótunum við starfsfólk almannastofnunar sem ekki hefur gert annað en að reyna að sinna vinnu sinni af þeirri trúmennsku sem óskandi væri að Vigdís Hauksdóttir reyndi einhvern tímann að tileinka sér. Manneskja sem sýnir slík viðhorf til valda á ekki að hafa völd.