Mikið er lagt í innanrýmið sem mun svipa mjög til hinna nýju A-Class og CLA. Ekkert mun skorta upp á kraftinn þrátt fyrir að vélarnar verði eyðslugrannar og umhverfismildar . Fyrsti framleiðslubíll GLA verður GLA 250 4Matic með tveggja lítra vél sem skilar 208 hestöflum. Sportjeppinn er með 7gíra DCT gírkassa. Hann verður aðeins 6,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.
AMG ofurútfærslan á GLA verður með tveggja lítra, fjögurra strokka vél með túrbínu. Þetta er sams konar vél og í A 45 AMG og CLA 45 AMG. Vélin er geysi öflug og skilar 355 hestöflum. Sportjeppinn verður með 4MATIC fjórhjólakerfinu Mercedes-Benz og bætir það bæði veggrip og stöðugleika bílsins auk þess sem það eykur snerpu og öryggi í akstri.
4MATIC kerfið deilir vélarafli og snúningsvægi til allra fjögurra hjóla bílsins eftir þörfum hverju sinni, jafnt þegar ekið er á bundnu slitlagi sem utanvega. Stefnt er að því að GLA komi einnig með framhjóladrifi en sú útgáfa en líklega ekki væntanleg á markað fyrr en 2015. Mercedes-Benz ætlar nýja lúxus sportjeppanum stórt hlutverk og er honum stefnt í harða samkeppni við Audi Q3 og BMW X1.
