Erlent

Forseti Þýskalands sniðgengur Ólympíuleikana í Sochi

Bjarki Ármannsson skrifar
Joachim Gauck á að hafa tilkynnt ákvörðun sína í síðustu viku.
Joachim Gauck á að hafa tilkynnt ákvörðun sína í síðustu viku. MYND/AFP
Joachim Gauck, forseti Þýskalands, hefur ákveðið að sniðganga Vetrarólympíuleikana í Rússlandi næsta febrúar. Hann er fyrsti þjóðarleiðtoginn sem hafnar opinberlega boði á leikana.

Þýska dagblaðið Der Spiegel segir frá því í dag að Gauck hafi tilkynnt rússneskum stjórnvöldum frá ákvörðun sinni í síðustu viku. Forsetinn hefur oft gagnrýnt stjórnarfar í Rússlandi og neitað að heimsækja landið síðan hann tók við embætti í mars 2012. Talið er að með því að sniðganga leikana vilji Gauck mótmæla þeim mörgu mannréttindabrotum sem Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, og stjórn hans hafa verið sökuð um. 

Margir þekktir einstaklingar hafa hvatt þjóðarleiðtoga til að hafna boði á leikana, meðal annars enski leikarinn Stephen Fry og söngkonan Lady Gaga. Vilja þau með þessu berjast gegn hinum mjög umdeildu lögum gegn „samkynhneigðum áróðri“ sem samþykkt voru á rússneska þinginu í sumar og vöktu mikla athygli. Barátta þeirra hefur þó lítinn árangur borið og bæði David Cameron, forsætisráðherra Breta, og Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hafa lýst því yfir að þau muni heiðra leikana með nærveru sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×