Íslendingaliðið Avaldsnes náði ekki að tryggja sér norska bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu í dag. Liðið tapaði úrslitaleiknum gegn Stabæk, 1-0.
Eina mark leiksins kom í fyrri hálfleik. Skalli sem Guðbjörg Gunnarsdóttir hafði hendur á en náði ekki að stöðva.
Avaldsnes átti nokkrar ágætar sóknarlotur í leiknum en gekk ekkert að koma boltanum í netið í frostinu á Ulleval.
Guðbjörg, Hólmfríður Magnúsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir voru allar í liði Avaldsnes í dag og léku allan leikinn.
