Ensími gaf út plötuna Gæludýr árið 2010 og eru meðlimir farnir að huga að nýrri skífu. Bæði Hrafn söngvari og Franz hafa verið í fæðingarorlofi og eigi orðið helling af efni. Sömuleiðis á Ensími slatta af áður óútgefnu efni.
Lítið hefur farið fyrir hljómsveitinni Dr. Spock undanfarið en þó kom sveitin óvænt fram á Icelandairwaves hátíðinni. Lára Rúnarsdóttir átti að koma fram en veiktist heiftarlega og kallaði eiginmaður hennar, trommarinn Arnar Gíslason þá á félaga sína í Dr. Spock sem fylltu í skarðið. Sveitin kom fram á frekar lágstemmdu kvöldi á Gauki á Stöng en féllu vel í kramið og hrópuðu erlendir gestir hátíðarinnar Láru nafnið í uppklappslaginu. Líklega fer Dr. Spock í hljóðver á næsta ári.
Fyrsta platan? Allar plötur Led Zeppelin eru í raun fyrstu plötur Franz. Hann hafði áður stolist í plötusafn eldri bróður síns sem var plötusnúður á skemmtistaðnum Hollywood. Þar hafði hann fundið plötur með Zeppelin og fallið fyrir þeim. Svo verslaði hann allar plöturnar með sveitinni í Skotlandsferð fjölskyldunnar.
Fyrstu tónleikar? Það voru tónleikar Kiss í reiðhöllinni árið 1988. Mikil upplifun fyrir unga rokkarann að sjá og heyra goðin á sviði og sjá ungar konur bera á sér barminn fremst við sviðið.
Hvað fílar Franz núna? Franz er alæta á tónlist og reynir að fylgjast vel með. Hann er duglegur að heimsækja tónlistarveitur eins og Gogoyoko.
Uppáhalds kvikmynd ? Rokk í Reykjavík og tónlistarmyndir ýmiskonar. Svo er það auðvitað Stjörnustríð sem að stendur uppúr.
Uppáhaldssjónvarpsþáttur? Franz festist í sápuóperunni Neighbours með konunni sinni í fæðingarorlofinu.
Átrúnaðargoð? Jimmy Page úr Led Zeppelin.
Hér fyrir neðan má sjá hljómsveitina Dr. Spock í öllu sínu veldi. Viðtalið má hlusta á hér fyrir ofan.