Sala BMW i3 hefst ekki fyrr en 16. nóvember í Þýskalandi og fljótlega eftir áramót í Bandaríkjunum, Kína og Japan. Bíllinn kostar 34.950 Evrur, eða um 5,8 milljónir króna. Verð hans í Bandaríkjunum verður 41.350 dollarar, eða 5.050.000 kr.
Það er eins gott að ágæt eftirspurn sé eftir BMW i3 því fyrirtækið hefur fjárfest fyrir 330 milljarða króna í rafmagnsbílana i3 og i8. BMW i3 bíllinn er hannaður frá grunni, ekki byggður á bíl sem fyrir var.
BMW i8 bíllinn fer í sölu á næsta ári og aldrei að vita hvort fleiri rafmagnsbílar bætast í flota BMW á næstunni, en BMW hefur sótt um einkaleyfi á i1 til i9 heitunum. Svo miklar eru fjárfestingar BMW í nýjum bílgerðum að hagnaðarprósent af veltu hefur fallið í 10% á árinu frá 12% í fyrra.
